Gátu ekki sótt sjúkling yfir á

Sveinn Sigurjónsson og Kolbrún Anna dóttir hans fyrir utan Þverárkot.
Sveinn Sigurjónsson og Kolbrún Anna dóttir hans fyrir utan Þverárkot. mbl.is/RAX

Sjúkrabíll gat ekki sótt Svein Sigurjónsson, tæplega áttræðan íbúa á bænum Þverárkoti við rætur Esju í Reykjavík, á föstudaginn þar sem engin brú er yfir Þverá. Sveinn ók sjálfur yfir ána á eigin bíl til móts við sjúkrabílinn.

Sveinn veiktist skyndilega á föstudaginn. Dóttir Sveins hringdi í föður sinn rétt eftir að hann hafði liðið út af og náð að skríða inn í stofu og upp í sófa.

„Ég heyrði að það var eitthvað mikið að og hringdi í Neyðarlínuna. Ég nefndi það ekki í fátinu að það þyrfti að fara yfir óbrúaða á til að komast að bænum. Ég hefði haldið að slíkar upplýsingar lægju fyrir hjá Neyðarlínunni,“ segir Kolbrún Anna, dóttir Sveins.

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir að eftir að bráðaliðar sem fylgdu leiðbeiningum frá Neyðarlínunni komu að óbrúaðri á hafi þeir hringt þar sem þeir treystu sér ekki yfir. Á loftmyndum megi ef vel er að gáð sjá dökkan blett á leiðinni í Þverárkot en það síðasta sem mönnum detti í hug sé að það þurfi að fara yfir á til þess að sækja sjúkling inn á heimili innan borgarmarka Reykjavíkur.

„Það var hringt í Svein til þess eins að fá upplýsingar um hvort óhætt væri að fara yfir ána á venjulegum sjúkrabíl og ef svo væri hvernig best væri að haga því. Sveinn réð frá því og vildi sjálfur koma yfir ána á sínum bíl. Honum var sagt að hægt væri að koma með stærri sjúkrabíl sem kæmist yfir ána en Sveinn tók það ekki í mál,“ segir Tómas og bætir við að Neyðarlínan muni bregðast við og kanna í samráði við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hvort vitað sé um fleiri heimili á höfuðborgarsvæðinu þar sem ekki er hægt að komast alla leið með sjúkrabíla.

Kolbrún Anna segir föður sinn enn á sjúkrahúsi. Hann hafi verið fárveikur þegar þangað kom en sé nú á batavegi. Hún segir að framkvæmdaleyfi sé komið fyrir að leggja ræsi yfir Þverá, sem geri það að verkum að hægt verði að aka alla leið að Þverárkoti.

Svanur Bjarnason, svæðistjóri hjá Vegagerðinni, segir að hægt ætti að vera að leggja ræsi yfir Þverá nú um mánaðamótin ef veður setur ekki strik í reikninginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert