Heilbrigðisstefna samþykkt í ríkisstjórn

Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir kynna sér aðstæður á Landspítalanum …
Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir kynna sér aðstæður á Landspítalanum á dögunum. Heilbrigðisráðherra mun mæla fyrir nýrri heilbrigðisstefnu til 2030 á næstunni. mbl.is/Eggert

Þingsályktunartillaga Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 var til umfjöllunar í ríkisstjórn í gær og samþykkt var að senda hana til þingflokka. Að lokinni umfjöllun í þingflokkum verður tillagan lögð fyrir Alþingi þar sem ráðherra mælir fyrir henni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu, en vinna við mótun heilbrigðisstefnu hófst í apríl í fyrra, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

„Við vinnuna hefur verið byggt á margvíslegum greiningum sem gerðar hafa verið á ýmsum þáttum heilbrigðisþjónustunnar hér á landi á síðustu árum og tekið mið af ýmsum gögnum og upplýsingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, m.a. heilbrigðisstefnu Evrópu til ársins 2020. Jafnframt hefur verið stuðst við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun,“ segir í fréttatilkynningunni, en fulltrúar heilbrigðisstofnana af öllu landinu voru einnig kallaðir til við að taka þátt í vinnunni.

Drög að heilbrigðisstefnunni voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til 19. desember sl. og í fréttatilkynningu ráðuneytisins kemur fram að tæplega 30 umsagnir hafi borist, sem tekið hafi verið tillit til eins og kostur var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert