Rannsaka óþekktan hlut á Ísafirði

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ræða við lögregluþjóna fyrir utan húsið við Þvergötu, …
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar ræða við lögregluþjóna fyrir utan húsið við Þvergötu, nú fyrir skemmstu. Ljósmynd/Ágúst Atlason

Sprengjusérfræðingar frá Landhelgisgæslu Íslands hafa verið kallaðir til Ísafjarðar, eftir að húsráðandi þar í bæ tilkynnti lögreglu um grunsamlegan hlut sem hann fann við framkvæmdir í húsnæði sínu. Ekki liggur fyrir hvort um sprengju er að ræða eður ei.

Þórhallur B. Snædal, eigandi hússins, sem stendur við Þvergötu, hlær er blaðamaður spyr hvort það sé rétt að sprengja hafi fundist undir heimili hans.

„Þetta gæti líka bara verið rakspíri sko. Þetta er bara eitthvert hylki sem ég fann og ég ákvað að vera öruggur og láta lögregluna á Ísafirði vita,“ segir Þórhallur, sem segir hlutinn hafa verið ryðgaðan og á stærð við bjórdós eða handsprengju, en hann fann hina mögulegu sprengju er hann var að taka upp gólfið í húsinu og róta í jarðvegi sem þar er.

„Ég er smiður og hef verið að vinna í mörgum gömlum húsum og hef ekki séð þetta áður. Kannski er þetta eitthvert rússneskt rafmagnstengi eða eitthvað, ég bara hef ekki hugmynd um það,“ segir Þórhallur, en honum þótti sem áður segir öruggast að láta lögreglu útkljá málið og ljóst er að þar á bæ vilja menn fara með öllu að gát og hafa kallað til sprengjusérfræðinga frá Landhelgisgæslunni.

Sjónarvottur sem mbl.is ræddi við sagðist hafa séð sprengjuvélmenni við húsið, en ekki hefur reynst mögulegt að fá neinar upplýsingar vegna þessa máls frá lögreglunni á Ísafirði, enn sem komið er.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir til Ísafjarðar.
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir til Ísafjarðar. Ljósmynd/Ágúst Atlason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert