Úrkoma ýmist í föstu eða votu formi

MODIS (NASA) mynd af Íslandi 16.1.2019 klukkan 13.40 Snjór og …
MODIS (NASA) mynd af Íslandi 16.1.2019 klukkan 13.40 Snjór og sól.

Í dag má búast við allbreytilegu veðri, en þar sem hlýnar á landinu og hlánar víða við suður- og suðvesturströndina má gera ráð fyrir að úrkoman verði ýmist í föstu og eða votu formi, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Næst ströndinni ætti að vera væta af og til frá því síðdegis og á morgun en ekki er gert ráð fyrir mikilli úrkomu. Fyrir norðan og austan dregur úr frosti og gera spár ráð fyrir að á þeim slóðum geti muggað í mestallan dag og fram á nótt en hins vegar ætti ofankoma á morgun að vera minni háttar. Um landið norðvestanvert verður lítil úrkoma í dag og á morgun. Fremur lítill vindur á landinu einnig og ættu samgöngutruflanir að verða litlar.

Veðurspá fyrir næstu daga

Austlæg átt, 3-10 í dag og úrkomulítið norðvestan til, annars snjókoma með köflum, en suðlægari vindur og slydda eða rigning með suðurströndinni. 
Hægari á morgun og skúrir eða él, en lengst af þurrt inn til landsins fyrir norðan. 
Hiti 0 til 5 stig syðst, en frost annars 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum NA-til.

Á föstudag:
Austlæg átt, 3-8 m/s og dálítil él á víð og dreif, en heldur hvassari og skúrir með suðurströndinni. Hiti 0 til 5 stig syðst, en frost annars 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum. 

Á laugardag:
Suðaustan 13-18 m/s, rigning eða slydda og hiti 0 til 5 stig, en þurrt NA-til. Suðvestlægari síðdegis með snjókomu eða slyddu, en síðar éljum og kólnandi veðri, fyrst SV-til. 

Á sunnudag:
Suðvestanátt, sums staðar allhvöss og él, en hægari og léttskýjað á N- og A-landi og frost 0 til 8 stig, kaldast NA-til. Vaxandi suðaustanátt og snjókoma og síðar rigning S- og V-lands um kvöldið og hlýnar. 

Á mánudag:
Suðlæg átt, og él en rigning eða slydda framan af degi A-til. Hiti nálægt frostmarki við ströndina, en annars vægt frost. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir breytilega átt, él á stöku stað og fremur kalt, einkum inn til landsins.

Fréttir af færð 

Vetrarfærð er um allt land en gott ferðaveður, segir á vef Vegagerðarinnar.

Suðvesturland: Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum og hálka eða hálkublettir á mörgum öðrum leiðum. Þæfingsfærð er á Grafningsvegi efri.

Vesturland: Hálka eða hálkublettir eru á flestöllum leiðum.

Vestfirðir: Hálka eða hálkublettir eru á vel flestum leiðum. Ófært er norður í Árneshrepp sem og um Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar.

Norðurland: Hálka eða snjóþekja er á vegum. 

Norðausturland: Snjóþekja eða hálka víðast hvar á svæðinu.  

Austurland: Snjóþekja eða hálka eru á flestum leiðum. Ófært er um Breiðdalsheiði og Öxi. 

Suðausturland: Snjóþekja er á vegum og snjókoma austan Öræfa.

Suðurland: Snjóþekja er austan Hvolsvallar, annars hálka eða hálkublettir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert