Lögreglan varar við hálku

Það borgar sig að fara varlega í dag enda hált …
Það borgar sig að fara varlega í dag enda hált víða. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar vegfarendur við hálku sem er víðast hvar á höfuðborgarsvæðinu. Hún getur verið sérstaklega varasöm víða á göngustígum og bifreiðastæðum.

Spáin fyrir höfuðborgarsvæðið í dag:

Austan og síðar suðaustan 5-10 og skúrir eða él í dag. Hiti 1 til 4 stig. Suðaustan 10-18 og rigning eða slydda í fyrramálið, en snýst í suðvestan 8-15, kólnar með slyddu og síðan snjókomu um hádegi. Éljagangur síðdegis og hiti um og undir frostmarki.

Vetrarfærð er í öllum landshlutum en þó síst á Suðvesturlandi. Hvergi er spáð hvössum vindi. Þar sem hiti er um og yfir frostmarki má búast við slæmri hálku meðan snjó og hálku er að taka upp, samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

Suðvesturland: Hálkublettir eru m.a. á Hellisheiði en snjóþekja á Mosfellsheiði. Annars eru aðalleiðir greiðfærar en sums staðar er krap eða hálka á fáfarnari vegum, raunar flughált á Krýsuvíkurvegi og á kafla vestan Grindavíkur.

Vesturland: Víða éljagangur, og snjóþekja eða hálka á flestum vegum.

Vestfirðir: Mikið autt við Breiðafjörð en meiri hálka á öðrum leiðum. Ófært er norður í Árneshrepp sem og um Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar.

Norðurland: Snjóþekja og hálka um allt svæðið og sums staðar éljagangur. 

Norðausturland: Snjóþekja og hálka víðast hvar og éljagangur.  

Austurland: Snjóþekja eða hálka og víða ofankoma. Ófært er um Breiðdalsheiði og Öxi. 

Suðausturland: Hálka meira og minna með suðausturströndinni. Hiti er á köflum yfir frostmarki og þar má búast við leiðinlegum aðstæðum.

Suðurland: Þar er víðast hvar nokkur hálka, krapi eða snjóþekja. Sums staðar er raunar flughált á útvegum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert