Gekk til liðs við erfiðan andstæðing

Ingólfur Hannesson.
Ingólfur Hannesson. Ljósmynd/Aðsend

Ingólfur Hannesson er að flytja aftur til Íslands eftir langa búsetu í Sviss, þrátt fyrir að hafa verið ráðinn til starfa hjá alþjóðlega fjölmiðla- og markaðssetningarfyrirtækinu Infront sem er með höfuðstöðvar sínar í landinu.

Ingólfur verður með starfsaðstöðu í Sviss en ekki er um fullt starf að ræða. Hann mun sinna ráðgjafastörfum varðandi áætlanagerð í kringum vetraríþróttir. Samningurinn er til þriggja ára og mun hann einbeita sér að verkefnum í tengslum við samninga sem koma til með að losna á næstu árum.

„Þetta hefur verið gríðarleg reynsla,“ segir hann um starf sitt í Sviss síðustu 16 árin en hlakkar mikið til að flytja aftur heim til Íslands, auk þess sem dóttir hans býr með fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn. „Ég orða það stundum þannig að maður eigi bara eitt tré í lífinu og maður verður að vita hvar það tré er. Tréð er á einum stað en ræturnar eru á öðrum stað, það er á Íslandi.“

Aðspurður segir hann Sviss vera stórkostlegt land að mörgu leyti. Honum líkar í raun betur við Sviss en Svisslendinga, sem hann segir andstæður Íslendinga varðandi hugsanahátt og hvernig þeir sjá hlutina í kringum sig.    

Á góðri stundu með dr. Klaus Leistner, framkvæmdastjóra austurríska skíðasambandsins.
Á góðri stundu með dr. Klaus Leistner, framkvæmdastjóra austurríska skíðasambandsins. Ljósmynd/Aðsend

Boltinn byrjaði að rúlla eftir HM á Íslandi

Aðdragandi þess að Ingólfur flutti búferlum til Sviss á sínum tíma, eftir að hafa unnið sem íþróttastjóri á RÚV, var starf hans í kringum á HM í handbolta Íslandi árið 1995 þegar hann tók að sér að sjá um allar sjónvarpsútsendingarnar. Það vakti athygli og var honum í framhaldinu boðið að starfa í stuttan tíma fyrir Samband evrópskra útvarps- og sjónvarpsstöðva (EBU) á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1998. Eftir að hafa unnið áfram fyrir EBU hér og þar var honum boði starf hjá sambandinu í Bern í Sviss þar sem hann var sviðsstjóri vetrar- og innanhússíþrótta á íþróttasviði, þar sem sautján manns starfa.

Árið 2011 var honum boðið að verða einn af framkvæmdastjórum íþróttasviðsins hjá EBU og þar var hann einn af þremur sem báru ábyrgð á öllum fjármálum, áætlanagerð og samningamálum sviðsins. Tekjusveiflan í hans starfi var í kringum 10 milljarðar króna þegar hún náði hámarki 2017. Þar er átt við peningana sem þeir innheimtu vegna sýningarréttar og greiddu til aðila. Þrjú stærstu sérsamböndin sem tengdust starfi hans voru Alþjóðaskíðasambandið, Alþjóðaskautasambandið og Alþjóðaskíðaskotfimisambandið.

Á Íslandi með eiginkonu sinni Guðrúnu Bjarnadóttur leikskólaráðgjafa.
Á Íslandi með eiginkonu sinni Guðrúnu Bjarnadóttur leikskólaráðgjafa. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti samkeppnisaðilinn hafði samband

Ingólfur ætlaði að hætta störfum í Sviss fyrir tveimur árum en hætti svo ekki fyrr en í júní síðastliðnum. Honum var boðið að halda áfram í ráðgjafastarfi en hætti því í lok ársins. Eftir það hafði Infront samband við hann, sem hafði verið stærsti samkeppnisaðili hans hjá EBU vegna sýningarréttar. „Á þessum markaði ríkir ofboðslega hörð og grimm samkeppni […] Þessa aðila hafði ég verið í samkeppni við um þessi réttindi og það hafði gengið á ýmsu á undanförnum árum. Þegar þeir fréttu af því að ég væri á lausu sneru þeir einhvern veginn við blaðinu og höfðu samband og buðu mér ráðgjafastarf,“ segir hann og er mjög spenntur fyrir því.

Allt er mun stærra í sniðum hjá Infront en EBU. Starfsmennirnir eru um 1.000 talsins í staðinn fyrir um 300 og það er með 38 starfsstöðvar í fjórtán löndum. Það er í eigu eins stærsta fyrirtækis í Kína [Wanda Group] sem starfar í bygginga- og skemmtanaiðnaðinum og er eigandi þess næstríkasti maður Kína. Kínverjarnir keyptu Infront árið 2010 fyrir 1,5 milljarða evra eða yfir 200 milljarða íslenskra króna.

Norðmaðurinn Johannes Thingnes Bø á heimsbikarmóti í skíðaskotfimi í Þýskalandi …
Norðmaðurinn Johannes Thingnes Bø á heimsbikarmóti í skíðaskotfimi í Þýskalandi í gær, þar sem Ingólfur var einmitt staddur. AFP

Stoltur af skíðaskotfiminni

Aðspurður segist Ingólfur vera einna stoltastur af störfum sínum í kringum skíðaskotfimina. Sú íþrótt hafi vaxið meira en nokkru önnur í Evrópu hvað varðar sjónvarp og stafræna miðla. Þegar hann hóf störf sýndu sjö sjónvarpsstöðvar frá skíðaskotfimi en núna eru 29 stöðvar með útsendingarréttinn og fara vinsældirnar vaxandi. Telur hann skíðaskotfimina eina af ástæðum þess að Infront bankaði á dyrnar hjá honum.

Ingólfur hvetur Íslendinga sem hafa áhuga á að reyna fyrir sér í erlendum fyrirtækjum að „kýla á það“. Vegna smæðarinnar hérlendis læri menn oft ferlið frá a til ö, til dæmis í fjölmiðlum, og öðlist þannig dýrmæta reynslu. Hún komi að góðum notum erlendis þar sem Íslendingar standi vel að vígi gagnvart öðrum starfskröftum.

Ekki er hægt að sleppa íþróttafréttamanninum fyrrverandi án þess að fá álit hans á næstu leikjum strákanna okkar á HM í handbolta. Hann segir að þungur róður sé fram undan og að ekki sé búið að fylla skarðið í sókninni sem Ólafur Stefánsson skildi eftir sig. Engu að síður sé Ísland með einn af bestu þjálfurum heims, Guðmund Guðmundsson, og landsliðið sjálft uppfullt af efnilegum leikmönnum sem hafi fengið góða reynslu á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert