Mikil hálka á Akureyri

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lögreglan á Norðurlandi eystra vill vara fólk við mikilli hálku á gangstígum og götum á Akureyri en þar er hitastigið komið upp fyrir frostmark. Vegagerðin varar einnig við hálku víða á landinu.

„Rétt er að vekja athygli vegfarenda á því að til morguns verður hiti mjög víða á landinu alveg við frostmark og úrkoma fellur mikið til sem bleytusnjór eða slydda. Ísing og hálka verður viðvarandi við þessar aðstæður, Hlýnar heldur í fyrramálið áður en kólnar aftur seinnipartinn,“ segir á vef Vegagerðarinnar.  

Færð og aðstæður

Suðvesturland: Aðalleiðir eru að mestu greiðfærar en sumstaðar er krap eða hálkublettir á fáfarnari vegum.

Vesturland: Hálka er á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði en snjóþekja á Bröttubrekku. Hálka eða hálkublettir eru nokkuð víða á láglendi. 

Vestfirðir: Flughálka er á Mikladal, annars er vetrafærð mjög víða, hálka eða snjóþekja. Ófært er yfir Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði.

Norðurland: Vetrarfærð, hálka eða hálkublettir . 

Norðausturland: Hálka og snjóþekja á Norðausturvegi (85) og hálka í Aðaldal, þæfingur er á Hófaskarði. Snjóþekja og skafrenningur er inn til landsins.  

Austurland: Snjóþekja er á Héraði en hálka á Fagradal. Hálka og snjóþekja er með ströndinni. Ófært er um Breiðdalsheiði og Öxi.

Suðausturland: Vetrarfærð er með suðausturströndinni, hálka eða hálkublettir.

Suðurland: Þar er víðast hvar nokkur hálka, krapi eða snjóþekja en þjóðvegurinn er greiðfær. Flughálka er á Rangárvallavegi að vestan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert