„Auðvitað kvikna viðvörunarljós“

Gunnar Hrafn Birg­is­son, doktor í klín­ískri sál­fræði, segir viðvörunarljós hafa …
Gunnar Hrafn Birg­is­son, doktor í klín­ískri sál­fræði, segir viðvörunarljós hafa kviknað við lestur bréfa sem Jón Bald­vin Hanni­bals­son­ skrifaði til Guðrún­ar Harðardótt­ur, systurdóttur Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns Baldvins. Guðrún steig fram fyrir sex árum og sagði sögu sína. Fyrir um viku stigu fjórar konur fram til viðbótar og segir Gunnar að #Metoo-hreyfingin hafi líklega átt þar hlut að máli þar sem þolendur hafa aukinn kjark til að stíga fram. mbl.is

„Rauð ljós kvikna út um allt, eðlilega,“ segir Gunn­ar Hrafn Birg­is­son, doktor í klín­ískri sál­fræði, um bréfaskrif Jóns Bald­vins Hanni­bals­son­ar til Guðrún­ar Harðardótt­ur, systurdóttur Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns Baldvins.

Gunnar var gestur Bjartar Ólafsdóttur í þjóðmálaþættinum Þingvöllum á K100 í morgun. Gunnar hefur sérhæft sig í barnagirnd og barnatælingu og leyndist tilefni umræðuefnisins engum, líkt og Björt sagði í þættinum, en hún spurði Gunnar hvort finna mætti líkindi með þeim aðferðum sem beitt er í bréfum Jóns Baldvins til Guðrúnar og aðferðum þeirra sem ætla sér og eru að níðast á börnum?

„Ég þekki þetta mál lítið, ég las þessa umfjöllun á sínum tíma, en ég vil ekki vera að leggja dóm á það en auðvitað kvikna eðlilega viðvörunarljós varðandi svona lagað, það er verið að tala um kynferðislegt efni við börn á þessum aldri,“ sagði Gunnar.

Jón Baldvin sendi Guðrúnu bréf á laun frá barnsaldri og fram á unglingsár og sagði henni í upphafi að fela bréfin en skrifa sér til baka. Guðrún steig fram í viðtali við Nýtt líf árið 2012 og sagði frá áreitninni og bréfunum sem innihéldu klúrt orðalag. Guðrún er meðal þeirra kvenna sem stofnuðu sérstakan #metoo-hóp á Facebook um Jón Baldvin.

Gunnar segir það sérstakt í þessu tiltekna máli að þarna eru haldbær gögn til staðar, það er bréfin. „Það er sjaldgæft. Yfirleitt fer svona fram með tali þar sem ekki er eitthvað skjalfest. Þarna horfir fólk á bréf og getur farið yfir hvað er að gerast og tekið einhverja afstöðu til þess, en yfirleitt er bara um frásögn barnsins að ræða.“

Hann segir hins vegar erfitt að taka á svona málum, sérstaklega þegar engin gögn eru til staðar eins og raunin oftast er. „Þá er á engu að taka, hvernig á að sanna það? Á að trúa barninu þegar það tjáir sig og allar þessar spurningar? Það er bara á síðustu áratugum þar sem byrjað er að leggja trúnað á það sem börn segja í svona málum. Fullorðnir áttuðu sig ekki á því hvað þetta var alvarlegt og fagfólk ekki heldur. Í seinni tíð, og kvennahreyfingin hefur verið þar í forgrunni um að breyta því að þetta sé tekið alvarlega, að þetta sé ekki bara tal heldur eru svona hlutir að gerast og þetta er mikilvægt efni til að fást við, finna farveg, taka á því og reyna að breyta.“

Erum enn þá á byrjunarskeiði

Björt spurði Gunnar, sem hefur unnið bæði með þolendum og gerendum í kynferðisbrotamálum, hvort málin séu fleiri en samfélagið gerir sér grein fyrir. Gunnar segir að #Metoo-hreyfingin sé gott dæmi sem sýni hversu umfangsmikil þessi mál eru. Hann segir hreyfinguna hafa opnað umræðuna og hjálpað þolendum til að stíga fram og segja frá persónulegri og erfiðri reynslu.

„Það er sláandi fjöldi sem þarna er um að ræða sem segir okkur að þarna er eitthvað sem þarf að taka miklu fastar á. Þessi umræða er að skila sér í því að það er brugðist við, en við erum enn þá á byrjunarskeiði, það verður ekki allt gert í einum hvelli og það tekur tíma fyrir samfélag að melta svona, viðurkenna staðreyndirnar og finna þessu farveg.“

Hér má hlusta á viðtal Bjartar við Gunnar í heild sinni. 

„Þarna er þetta svart á hvítu“

Gest­ir í seinni hluta þátt­ar­ins voru fjöl­miðlafólkið Aðal­heiður Ámunda­dótt­ir og Aðal­steinn Kjart­ans­son og fékk Björt þau meðal annars til að fara yfir yfirlýsingu Jóns Baldvins og mögulegt framhald þeirra ásakana sem upp hafa komið á hendur honum frá fjölda kvenna.

Aðalsteinn tók undir orð Gunnars um að það sem er sérstakt í máli Guðrúnar Harðardóttur er að þar eru gögn sem styðja framburð hennar, en samt sem áður varð ekkert framhald á málinu þegar hún steig fram fyrir sex árum. „Þarna er þetta svart á hvítu, en það sem gerist er að það er fjallað um þetta, svo er það búið, svo hverfur Jón Baldvin í smá tíma og svo hægt og rólega fer hann að koma aftur inn í umræðuna, kemur í viðtöl í fjölmiðla þar sem hann er sérfræðingur í ýmsum málefnum.“

Ekki nóg að senda bara yfirlýsingu

Fjór­ar kon­ur stigu ný­verið fram og sögðu í Stund­inni frá áreitni og of­beldi sem þær hefðu orðið fyr­ir af hendi Jóns Bald­vins. Fleiri kon­ur hafa síðan stigið fram á net­inu og sagst ým­ist vera þolend­ur eða vitni auk þess sem dótt­ir hans, Al­dís, kom fram í viðtali í Rík­is­út­varp­inu og sagði að Jón Bald­vin hefði mis­notað vald sitt til þess að nauðung­ar­vista hana á geðdeild eft­ir að hún hótaði hon­um lög­sókn vegna kyn­ferðis­brota. Aðalsteinn segir að ljóst sé að málinu sé hvergi nærri lokið, líkt og raunin varð fyrir sex árum þegar Guðrún steig ein fram.

„Þetta þarf klárlega að skoða meira og ég held að það sé ekki nóg fyrir Jón Baldvin að senda frá sér yfirlýsingu sem birtist í Fréttablaðinu þar sem hann afgreiðir þetta með tiltölulega einföldum hætti og segist ætla að bera harm sinn í hljóð. Þarna er búið að opna á eitthvað sem þarf að klára að skoða og klára að fjalla um og ég held að það sé ekki valmöguleiki að Jón Baldvin þegi það af sér eða að utanríkisþjónustan þegi það af sér, eða ráðuneytin eða allir þeir sem eiga þarna einhvern snertiflöt.“

Aðalheiður tók í sama streng og benti hún á að eitt af því sem þurfi að skoða frekar er notkun Jóns Baldvins á sendi­ráðsbréfs­efni og þegar hann und­ir­ritaði bréf sín til ís­lenskra ráðuneyta sem sendi­herra, þar sem hann óskaði eft­ir því að dótt­ir hans, Al­dís Schram, yrði nauðung­ar­vistuð á geðdeild.

„Bréfsefni sendiráðsins skiptir töluvert miklu máli. Það er spurning um hvernig þú kemur fram þínum vilja við fólk, gagnvart samfélaginu sem þú býrð í, þegar þú nýtur forréttindastöðu sem ekki aðrir njóta og þú getur beitt stöðu þinni til að fá vilja þínum framgengt gagnvart fólki sem kannski veit betur. Það er hluti af þessari sögu hvernig valdafólk getur komist upp með hluti eða beitt sér á hátt sem aðrir geta ekki og það er partur af því sem þarf að skoða.“

Hér má hlusta á viðtalið við Aðalstein og Aðalheiði í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert