Fólk geti búið heima eins lengi og kostur er

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Heilbrigðisráðherra telur að brýnt sé að grípa til ýmissa aðgerða vegna hækkandi hlutfalls aldraðra. Meðal annars verði áhersla lögð á að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili með stuðningi og þeirri heilbrigðisþjónustu sem einstaklingur þarf á að halda.

Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ellerts B. Schram. Ráðherra segir að til að halda heilsu sem lengst og geta lifað sjálfstæðu lífi skipti miklu að hvetja fólk til ábyrgðar og hollra lífshátta svo fyrirbyggja megi og seinka sjúkdómum og færnitapi ef þess er nokkur kostur.

Uppbygging og fjölgun hjúkrunarrýma hefur verið í algerum forgangi en mikilvægt er að styrkja aðra stuðningsþjónustu sem stuðlar að sjálfstæðri búsetu. Heimahjúkrun er einn liður í slíkri þjónustu. Nú um áramótin ákvað ráðherra að auka fjárveitingu um 130 millj. kr. til að efla heimahjúkrun,“ kemur fram í svari ráðherra.

Hún segir að þótt áhersla heilbrigðisyfirvalda sé fyrst og fremst á að stuðla að því að aldraðir geti búið heima eins lengi og unnt er þurfi að vera hægt að bregðast við þegar það sé ekki lengur mögulegt.

Framkvæmdir og undirbúningur við 14 hjúkrunarheimili eru nú yfirstandandi, bæði til fjölgunar rýma og til að bæta aðbúnað. Á næstu tveimur árum fjölgar hjúkrunarrýmum um tæp 200 rými, flest verða þau á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er mest. Einnig er undirbúningur hafinn fyrir önnur 206 ný hjúkrunarrými sem reiknað er með að verði tilbúin til notkunar innan fjögurra ára. Á sama tíma eru framkvæmdir við endurbætur á eldri rýmum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert