Áströlsku hjónin stefna Mountaineers

Hjónin David og Gail Wilson frá Ástralíu. Um er að …
Hjónin David og Gail Wilson frá Ástralíu. Um er að ræða skjáskot úr sjónvarpsfréttum RÚV frá 2017. Skjáskot/RÚV

Áströlsk hjón sem týndust í sjö tíma í vélsleðaferð við Langjökul fyrir tveimur árum hafa stefnt ferðaþjónustufyrirtækinu Mountaineers of Iceland. Þau krefjast miskabóta og segja atvikið hafa haft mikil sálræn áhrif á þau. RÚV greinir fyrst frá.

Fjallað var talsvert um mál hjónanna David Wilson og Galiu Wilson í fjölmiðlum eftir að málið kom upp, en þau urðu viðskila í vélsleðaferð á vegum fyrirtækisins eftir að vélsleði hjónanna slökkti á sér. 

Veður var slæmt og tóku 180 björgunarsveitarmenn ásamt starfsmönnum fyrirtækisins þátt í leit að hjónunum þar til þau fundust um sjö tímum síðar heil á húfi.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að hjónin hafi stefnt fyrirtækinu og krefjast þau fjögurra milljóna króna bóta vegna líkamlegs og andlegs miska. Þau hafi óttast um líf sitt og ákveðið að grafa sig í fönn fyrir nóttina. Svo kalt hafi verið í veðri að augnlinsur David frusu fastar og voru hjónin kalin á fingrum og tám, segir í frétt RÚV.

Aðalmeðferð fer fram í málinu í næstu viku. Mountaineers of Iceland hafnar ásökunum hjónanna og og krefst sýknu. Í frétt RÚV segir að í greinargerð fyrirtækisins segi að óveðrið hafi skollið á þegar ferðin var rúmlega hálfnuð og starfsmenn hafi fylgt öllum öryggisreglum enda hafi allir starfsmenn fyrirtækisins þá nýlega lokið við öryggisnámskeið.

Hjónin hefðu gert grundvallarmistök með því að færa sleðann frá staðnum þar sem þau urðu viðskila sem torveldaði alla leit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert