„Ekkert nýtt“ að fá sér bjór á vinnutíma

Karl Gauti Hjaltason.
Karl Gauti Hjaltason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég fékk póst,“ segir Karl Gauti Hjaltason þingmaður, um tölvupóst sem honum barst frá Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar og nefndarmanni í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, meðan á fundi nefndarinnar stóð 1. júní í fyrra. Í póstinum stendur að hún, og fleiri þingmenn, hefðu brugðið sér á barinn Klaustur.  

Karl Gauti segir að þetta sýni að það sé ekki einsdæmi að þingmenn fái sér bjór á vinnutíma. Þrjár þingkonur stjórnarandstöðunnar viku af fundi rúmum tveimur tímum áður en fundi var slitið. Rúmum tuttugu mínútum eftir að þær viku af fundinum sendi einn þremenninganna, Helga Vala, póst með yfirskriftinni „Fórum á Klaustur“.

Þar stendur að lokkandi sól sé í garðinum og bjór í krana. 

Í fundargerð má finna ástæðu þess að þingkonurnar véku af fundi. Þar kemur fram að í upphafi fundar lagði Hanna Katrín Friðriksson fram bókun þar sem því er harðlega mótmælt að stór hluti nefndarmanna stjórnarflokkanna mætti ekki á fundinn. Helga Vala tók undir bókunina.

Samkvæmt heimildum mbl.is var Karl Gauti eini nefndarmaður stjórnarandstöðunnar sem var eftir á fundinum og því hafi hann verið látinn vita af áformum þingkvennanna. 

Karl Gauti ítrekar að þetta sýni að þingmenn fari saman á veitingahús á vinnutíma og fái sér hugsanlega bjór. „Það er ekkert nýtt.“ Hann kveðst hafa prentað póstinn út á sínum tíma og muni hugsanlega nota hann til þess að sýna fram á að slíkt eigi sér stað.

„Ég hef heyrt að sumir hafi sagt að ég hafi verið þarna á vinnutíma, eða þegar á þingfundi stóð, þó að ég hafi verið búinn með mína ræðu. Þessi póstur er sönnun á því að slíkt þekkist meðal þingmanna.“

Sneri gagnrýnin við ferðina á Klaustur í nóvember ekki frekar að því hvað var sagt þar?

„Það hafa sumir verið að finna að því að menn hafi verið þarna á vinnutíma,“ segir Karl Gauti.

Þannig að ef aðrir gera eitthvað sem er rangt réttlætir það þá að þú gerir það?

„Nei, nei, nei. Ég er bara að segja að þetta er viðtekin venja. Margir þingmenn kannast vel við þetta og þetta er sönnun á því,“ segir Karl Gauti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert