Favourite fer í almenna sýningu

The Favourite hlaut tíu tilnefningar til Óskarsverðlaunanna.
The Favourite hlaut tíu tilnefningar til Óskarsverðlaunanna. Úr kvikmyndinni

Tilnefningar til Óskarsverðlaunanna voru gerðar opinberar í gær og eru þar í forystu Netflix-kvikmyndin Roma og kvikmyndin The Favourite, sem hljóta tíu tilnefningar hvor, meðal annars sem kvikmyndir ársins. Athygli hefur vakið að The Favourite hefur ekki verið í sýningu hér á landi.

Flestir Íslendingar ættu að kannast við Roma, ýmist af Netflix eða vegna fjölda tilnefninga til verðlauna, auk þess sem hún var valin besta erlenda kvikmyndin á Golden Globe-verðlaunahátiðinni. Þá hefur hún einnig verið í sýningu í Bíó Paradís.

Aðra sögu er að segja af kvikmyndinni The Favourite, sem frumsýnd var í desember í fyrra. Samkvæmt vef Smárabíós átti einungis að sýna kvikmyndina í Háskólabíó nokkrum sinnum í þessari viku en átti ekki að fara í almennar sýningar hér á landi.

Á því varð hins vegar breyting í dag. „Þetta er ákvörðun sem við erum að vinna með dreifingaraðilanum. Það var svolítið óvænt hve margar tilnefningar hún fékk,“ segir Konstantín Mikael Mikaelsson, framkvæmdastjóri kvikmyndasviðs hjá Senu.

„Myndin verður í stökum sýningum, ein sýning á dag út vikuna, og fer svo í almennar sýningar í Háskólabíói eftir helgina.“

Önnur mynd á lista tilnefninga til kvikmyndar ársins og hefur ekki verið sýnd hér á landi er kvikmyndin BlacKkKlansman. Samkvæmt upplýsingum frá Geir Gunnarssyni, markaðsstjóra Myndforms sem sér um dreifingu á kvikmyndum Universal á Íslandi, var ekki talið að nógu stór markaður væri fyrir myndina, sem fjallar um Ku Kux Klan, hér á landi, þegar kvikmyndin var frumsýnd í ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert