Flýgur áfram til Íslands í sumar

Farþegaþota á vegum bandaríska flugfélagsins American Airlines.
Farþegaþota á vegum bandaríska flugfélagsins American Airlines. AFP

Bandaríska flugfélagið American Airlines hyggst fljúga áfram milli Íslands og Dallas-borgar í Bandaríkjunum í sumar líkt og félagið gerði síðasta sumar. Hins vegar hafa íslensku flugfélögin Icelandair og WOW air bæði hætt að fljúga til borgarinnar.

Fjallað er um þetta á ferðavefnum Túristi.is þar sem rifjað er upp að kapphlaup íslensku flugfélaganna um áætlunarferðir frá Dallas hafi hafist í september 2017 þegar WOW air hafi tilkynnt að félagið setti stefnuna á flugvöllinn Dallas-Fort Worth. Síðan hafi Icelandair fylgt í kjölfarið. Flugvöllurinn er helsta starfsstöð American Airlines, stærsta flugfélags heims. Áætlunarflug íslensku félaganna hafi hafist í byrjun síðasta sumars og staðið fram til haustloka.

Haft er eftir fulltrúa American Airlines í umfjöllun ferðavefjarins að ánægja ríki með fyrstu vertíðina á Íslandi og þráðurinn verði tekinn upp aftur í sumar. Þetta séu góðar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu enda hafi margir ferðamenn komið frá Dallas og nágrenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert