Gjaldeyrisbrask og hlutabréfaást í héraði

Kristján Georg Jósteinsson (t.h.) er sagður hafa verið ástfanginn af …
Kristján Georg Jósteinsson (t.h.) er sagður hafa verið ástfanginn af hlutabréfamarkaðnum allt frá barnæsku. Hér er hann við upphaf aðalmeðferðar í morgun, ásamt Reimari Péturssyni verjanda sínum. mbl.is/Eggert

Alls gáfu átta vitni skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, við aðalmeðferð máls sem varðar innherjasvik fyrrverandi forstöðumanns hjá Icelandair. Vitnaleiðslum er lokið, en munnlegur málflutningur fer fram í fyrramálið.

Björn Stefánsson, fasteignasali og gjaldeyrisbraskari, að eigin sögn, kom síðastur fyrir dóminn og staðfesti það sem kom fram í morgun í svörum Kjartans Jónssonar, sem er ákærður fyrir innherjasvik í málinu, að uppruna þeirra rúmlega þriggja milljóna króna sem haldlagðar voru á heimili Kjartans við rannsókn málsins væri að rekja til gjaldeyrisviðskipta sem Björn hafði milligöngu um.

Kjartan var í námi í Japan og þar segist hann hafa náð að safna sér dágóðum sjóði af japönskum jenum, sem Björn keypti af honum fyrir hönd annars manns, samkvæmt því sem hann sagði fyrir dóminum, en þeir Björn og Kjartan kynntust í útlöndum.

„Við fórum í langt ferðalag um Kambódíu fyrir einhverjum 20-25 árum,“ sagði Björn um samband þeirra tveggja, en þeir hittast að hans sögn stundum á kvöldin til að drekka, enda eru þeir báðir einhleypir.

Stuðst við gögn frá Kjartani við gerð tekjuspár

Fyrir dóminn kom Matthías Sveinbjörnsson, flugmaður hjá Icelandair og fyrrverandi forstöðumaður tekjustýringar hjá flugfélaginu. Hann vann náið með Kjartani Jónssyni en gott samstarf tekjustýringar og leiðakerfisstjórnunar, sem Kjartan veitti forstöðu, var mikilvægt fyrir velgengni flugfélagins, að sögn Matthíasar.

Matthías var með tekjuspá félagsins á sinni ábyrgð, en allar breytingar á henni voru ákveðnar af honum og hans fólki. Fram kom í vitnisburði hans að við gerð tekjuspárinnar hefðu upplýsingar frá Kjartani verið hafðar til hliðsjónar, en Kjartan sá um að uppfæra skjal sem „sýndi breytingar á bókunum í samanburði við síðasta ár og breytingar á verðinu í samanburði við síðasta ár“, upplýsingar sem skipta miklu máli, að sögn Matthíasar.

Kjartan Jónsson, sem situr hér fyrir miðri mynd, sagði í …
Kjartan Jónsson, sem situr hér fyrir miðri mynd, sagði í morgun að hann hefði fengið þrjár milljónirnar sem haldlagðar voru á heimili hans í gjaldeyrisviðskiptum. Það staðfesti vitni síðdegis. mbl.is/Eggert

Þessar tölur um bókunarflæði félagsins litu ekki vel út í ársbyrjun 2017 og sú staða lagaðist ekki, sem varð til þess að Icelandair sendi frá sér afkomuviðvörun 1. febrúar. Í kjölfarið innleystu tveir ákærðu í málinu, Kristján Georg Jósteinsson og Kjartan Bergur Jónsson, umtalsverðan hagnað vegna afleiðuviðskipta sem byggðust á hlutabréfaverði Icelandair, sem féll afar skarpt á þessum tíma.

Kjartan er sakaður um að hafa veitt Kristjáni Georg upplýsingar um laka stöðu félagsins og Kristján Georg er sagður hafa miðlað þeim áfram til Kjartans Bergs.

Davíð Þorláksson, sem starfaði sem yfirlögfræðingur Icelandair Group á ákærutímabilinu, sagði fyrir dómi að hann hefði fyrst verið upplýstur um að senda þyrfti út afkomuviðvörun 31. janúar 2017. Fram kom í máli hans að félagið hefði lagt áherslu á að birta innherjaupplýsingar um leið og þær lágu fyrir.

Þeir Matthías og Davíð voru þeir einu sem störfuðu hjá Icelandair á ákærutímabilinu sem kallaðir voru fyrir dóminn sem vitni.

Fjármögnun Matstöðvarinnar í Kópavogi

Vitnaleiðslurnar tóku örlítið óvænta stefnu, að mati blaðamanns, er tekin var símaskýrsla af matreiðslumanni og hann spurður út í það hvernig hann, ásamt Brynjólfi, bróður Kristjáns Georgs, fjármagnaði standsetningu og tækjakaup á veitingastaðnum Matstöðinni, sem er í Kópavogi.

Matreiðslumaðurinn sagði að fjármögnunin hefði verið í höndum Brynjólfs Jósteinssonar, á meðan hann sjálfur hefði hugsað um matinn. Þannig hefði samstarfi þeirra verið háttað, en því er lokið í dag.

Brynjólfur sagðist sjálfur hafa fengið fimm milljóna króna lán til standsetningar staðarins frá bróður sínum, eftir að hafa fengið synjun um bankalán. Hann fékk féð, fimm milljónirnar, í reiðufé, sem bróðir hans færði honum, í febrúar 2017.

Áður hafði komið fram við réttarhöldin að Kjartan Bergur, sem er ákærður í málinu en skilur ekki hvers vegna, hefði tekið fimm milljónir út úr hraðbanka í seðlum eftir að hann var búinn að innleysa hagnað sinn af afleiðusamningnum sem hann gerði.

„Ástfanginn af þessum hlutabréfamarkaði“

Ómar Sigtryggsson, æskufélagi Kristjáns Georgs og viðskiptafræðingur sem starfar í fjármálageiranum, kom einnig fyrir dóminn. Hann lýsti því sem svo að Kristján væri „búinn að vera í raun og veru ástfanginn af þessum hlutabréfamarkaði“ síðan hann myndi eftir sér, en sjálfur lýsti Kristján því fyrir dómi í morgun að hann hefði átt sín fyrstu viðskipti með hlutabréf 17-18 ára gamall og alltaf verið hugfanginn af markaðnum.

Hann sagðist hafa séð að vinur sinn hefði „gríðarlega kunnáttu“ á hlutabréfamarkaði og að hann væri duglegur að fylgjast með fréttum af fyrirtækjum sem hann hefði svo tekið inn í ákvarðanir sínar á markaðnum. Hann sagði einnig að það væri „ekkert sem benti til þess að Kristján vissi meira en aðrir um mál Icelandair“.

Sigurður Rúnar Ólafsson, fyrrverandi verðbréfamiðlari hjá Landsbankanum, sagði að það hefði ekki verið neitt í fari Kristjáns sem hefði gefið til kynna að hann byggi yfir innherjaupplýsingum um Icelandair og að ekkert hefði verið óvenjulegt við þá afleiðusamninga sem hann gerði fyrir hönd fyrirtækis síns VIP Travel.

Símtal á milli Sigurðar og Kristjáns var borið undir Sigurð, en þar sagði Kristján meðal annars að það væru „að koma, koma svaka, svaka fín­ar töl­ur á föstu­dag­inn maður,“ og vísaði þá til flutningstalna Icelandair, sem eru kynntar mánaðarlega.

Sigurður sagði að tal sem þetta í samskiptum miðlara og viðskiptavina væri ekki óalgengt, þar sem menn spái fyrir um þetta, meðal annars greinendur. Það þyrfti ekki að þýða að menn hefðu aðgang að innherjaupplýsingum, þó að þeir töluðu á þennan hátt við verðbréfamiðlara.

Sem áður segir er vitnaleiðslum lokið og munnlegur málflutningur verður í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert