Óuppfyllt íbúðaþörf mun minnka

Samkvæmt greiningu Íbúðalánasjóðs á íbúðaþörf er áætlað að byggðar verði …
Samkvæmt greiningu Íbúðalánasjóðs á íbúðaþörf er áætlað að byggðar verði samtals 10.000 íbúðir á árunum 2019-2021.

„Tillögurnar munu auka framboð, tryggja stöðugleika á markaðnum og lækka byrði húsnæðiskostnaðar hjá viðkvæmum hópum,“ segir Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, í samtali við mbl.is, um nýjar húsnæðistillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í gær.

Íbúðalánasjóður (ÍLS) stóð fyrir opnum fundi í hádeginu í dag þar sem Ólafur Heiðar fór yfir tillögur hópsins sem og nýja spá Íbúðalánsjóðs um íbúðaþörf á næstu tuttugu árum eða svo. Ólafur starfaði með átakshópnum og vann hópurinn til að mynda með greiningu ÍLS sem nú hefur verið birt í heild sinni á vef stofnunarinnar.

10.000 íbúðir byggðar á næstu tveimur árum

Greiningin er því í takt við það sem kemur fram í skýrslu átakshópsins, það er að óupp­fyllt íbúðaþörf er nú á bil­inu 5.000-8.000 íbúðir á land­inu öllu. „Við áætlum að á undanförnum árum hafi verið byggðar færri íbúðir sem nemur þörf, það er svo sem ekki ný niðurstaða. En við áætlum hins vegar að það verði byggðar mjög margar íbúðir á næstu árum þannig að þessi óuppfyllta íbúðaþörf mun minnka,“ segir Ólafur Heiðar.

Samkvæmt greiningunni er áætlað að byggðar verði samtals 10.000 íbúðir á árunum 2019-2021 og að óuppfyllt íbúðaþörf minnki úr 5.000 í 2.000 íbúðir í upphafi árs 2022.

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, fjallaði um nýjar …
Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, fjallaði um nýjar húsnæðistillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar á opnum fundi Íbúðalánasjóðs í hádeginu í dag. Ljósmynd/Íbúðalánasjóður

Þörf á fleiri þriggja herbergja íbúðum

Ólafur Heiðar segir að ýmis teikn séu á lofti um breytingar þegar kemur að spurn eftir stærð íbúða. „Við sjáum það að það eru vísbendingar um það að einstaklingsheimilum muni fjölga mest á næstu árum, sem er breyting frá því sem áður var. Nú eru um 30% allra heimila einstaklingsheimili en við áætlum að helmingur allrar fjölgunar heimila til ársins 2040 verði vegna einstaklingsheimila.“

Á sama tíma er það mat hagdeildar Íbúðalánasjóðs að svo virðist vera að einna mest vöntun sé á þriggja herbergja íbúðum á markaði. „Það hefur verið mikið talað um það að þær íbúðir sem eru í byggingu séu of stórar. En það sem hefur verið að gerast á undanförnum misserum er að íbúðirnar hafa verið að minnka sem er ánægjuleg þróun. Meðalstærð þeirra íbúða sem eru núna auglýstar til sölu á höfuðborgarsvæðinu er um 110 fermetrar,“ segir Ólafur Heiðar en bætir við að miðað við greininguna þyrfti þróunin jafnvel að ganga enn lengra. „Þær íbúðir sem eru núna í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru 110-120 fermetrar að meðaltali en okkur sýnist sem svo að það sé mest vöntun á 80-120 fermetra íbúðum.“

Næsta skref að kostnaðarmeta tillögurnar

Til­lög­ur átaks­hópsins felast í auknu fram­boði á íbúðum og öðrum aðgerðum til að bæta stöðu á hús­næðismarkaði og eru þær alls fjöru­tíu tals­ins, í sjö flokk­um. Ólafur Heiðar segir að það sé mikið ánægjuefni að svo virðist sem víðtæk samstaða sé um tillögurnar.

Tillögurnar hafa ekki verið kostnaðarmetnar og munu næstu skref fara fram inni í ráðuneytum og hjá sveitarfélögum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fjár­mögn­un til­lagna átaks­hóps um aukið fram­boð á hús­næði, sem snúa að rík­inu, sé á byrj­un­ar­stigi.

Ólafur Heiðar segir að við kostnaðarmat tillagnanna þurfi sérstaklega að huga að nákvæmum útfærslum einstakra tillagna. „Margar af þessum tillögum eru tillögur sem snúast um lagabreytingar og þær eru miskostnaðarsamar. Næsta skref er að kostnaðarmeta þær tillögur sem við á og það þarf líka að huga að nákvæmum útfærslum einstaka tillagna.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert