Ekki upplýst um kaupendur vegna óvissu um lögmæti birtingar

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn á Alþingi til …
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn á Alþingi til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um kaupendur fullnustueigna sjóðsins, bæði einstaklinga og fyrirtæki. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Félagsmálaráðuneytið sér sér ekki fært að afhenda Alþingi upplýsingar um kaupendur fullnustueigna Íbúðalánasjóðs árin 2008 til 2017 vegna lagalegrar óvissu um heimild til opinberrar birtingar slíkra persónuupplýsinga.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn á Alþingi til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um kaupendur fullnustueigna sjóðsins, annars vegar einstaklinga og hins vegar fyrirtæki.

Í svari við fyrirspurninni segir að um sé að ræða töluvert magn af persónugreinanlegum upplýsingum og ráðuneytið hafi af þeim sökum leitað álits Persónuverndar vegna vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd sagði í svari sínu ráðherra hafa rúmar heimildir til að afhenda upplýsingarnar en áréttaði að við vinnslu persónuupplýsinga bæri ávallt að fara að grunnreglum persónuverndarlaga þannig að við vinnslu upplýsinganna skyldi þess gætt að þær væru unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti.

Taldi Persónuvernd þó að birting slíkra upplýsinga fyrir almenningi á vef þingsins væri atriði sem þingið þyrfti að taka afstöðu til. Alþingi hefur þó ekki viljað taka afstöðu til opinberrar birtingar umræddra upplýsinga og vísar til vinnureglu sinnar að svör við fyrirspurnum til ráðherra séu birt á vef þingsins og það geti ekki tekið afstöðu til þess hvaða upplýsingar séu birtar á vef þess eða tekið ábyrgð á slíkri birtingu.

Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir ítarlegra áliti Persónuverndar í því ljósi, þ.e. hvort ráðherra væri heimilt að afhenda umbeðnar upplýsingar. Í svari Persónuverndar kom fram að afhending upplýsinganna frá ráðherra og birting þeirra á Alþingisvefnum væru tvær aðskildar vinnsluaðgerðir. Félagsmálaráðuneytið væri ábyrgðaraðili afhendingar upplýsinganna til Alþingis en Alþingi ábyrgðaraðili birtingarinnar.

Segir enn fremur í svari við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar að Persónuvernd þyrfti að veita sérstakt álit til Alþingis um opinbera birtingu upplýsinganna óskaði þingið þess. „Ekki liggur því fyrir álit stofnunarinnar um opinbera birtingu upplýsinganna, en fyrir liggur að afhendi ráðherra upplýsingarnar muni Alþingi birta þær án tafar,“ segir í svarinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert