Þjórsárdalur friðlýstur í heild

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal.
Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal. mbl.is/Brynjar Gauti

Minjastofnun hefur gert tillögu að friðlýsingu alls búsetulandslags Þjórsárdals. Tillagan er unnin samhliða tillögu að friðlýsingu náttúruminja í hluta dalsins. Gangi áform Minjastofnunar eftir verður Þjórsárdalur fyrsta svæðið til að hljóta friðlýsingu í heild sinni en hingað til hefur tíðkast að friðlýsa staka minjastaði.

Tillagan byggir á heimild í menningarminjalögum um að friðlýsa megi samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður telst hafa sérstakt menningarsögulegt gildi. Nýleg skráning í dalnum bendir til þess að þar séu hátt í 300 minjar.

Í rökstuðningi Minjastofnunar kemur fram að Þjórsárdalur hafi sérstöðu vegna þeirra fornu minja sem varðveist hafa í dalnum. Þegar eru 22 bæjarstæði friðlýst í dalnum sem eru leifar af bæjum sem fóru í eyði á ýmsum tímum, ýmist af völdum versnandi veðurfars og uppblásturs vegna síendurtekinna Heklugosa.

Á svæðinu sem Minjastofnun leggur til að verði skilgreint sem minjaheild eða búsetulandslag er leitast við að tengja saman hinar ólíku minjar í dalnum, s.s. leifar eftir iðnað eins og járnvinnslu, kumlasvæði, sel, beitarhús, réttir, garðlög, leiðir og vörður.

„Allt er þetta vitnisburður um búskaparhætti í Þjórsárdal á fyrri öldum og fá fornleifarnar þannig meira vægi sem hluti heildar en sem stakar minjar slitnar úr samhengi við umhverfi sitt,“ segir í rökstuðningi Minjaverndar.

Þar segir enn fremur að Þjórsárdalur hafi að geyma einstaka minjaheild frá miðöldum sem sé lítt snortin af síðari tíma framkvæmdum. Þá hafi Þjórsárdalur ótvírætt rannsóknargildi fyrir fræðimenn enda megi rekja upphaf nútímafornleifarannsókna á Íslandi til viðamikilla rannsókna sem gerðar voru á minjum í dalnum og hafa fornleifarannsóknir farið þar fram allt frá miðri 19. öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert