„Vasar þeirra ríku dýpka“

Bjartur Aðalbjörnsson á Alþingi í dag.
Bjartur Aðalbjörnsson á Alþingi í dag. Skjáskot af vef Alþingis

„Stefna Samfylkingarinnar er skýr um jöfn tækifæri allra,“ sagði Bjartur Aðalbjörnsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sem flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag. Hann sagði samneyslu, þar sem gæðunum sé jafnt dreift þannig að öllum sé tryggt lífsviðurværi, leiðina.

Hann sagði að síðustu áratugi hefðu angar frjálshyggjunnar grafið undan þessari samneyslu og að samfélagið væri í auknum mæli sniðið að þeim sem eiga meira. „Vasar þeirra ríku dýpka og þeir sem ekki vita aura sinna tal koma auðnum fyrir í buxnavösum afskekktra eyríkja til þess eins að komast hjá sinni ábyrgð í samneyslunni,“ sagði Bjartur.

Hann benti á að samkvæmt skýrslu Oxfam eiga 26 ríkustu einstaklingar í heimi jafn mikinn auð og fátækari helmingur heimsbyggðarinnar. Til að koma í veg fyrir frekari misskiptingu hér á landi þurfi að breyta skattkerfinu og byggja það upp, öllum til hagsældar.

„Árið 2016 runnu 60 milljarðar fjármagnstekna til 330 einstaklinga. Sá tekjuhæsti í þessum hópi þénaði þrjá milljarða í fjármagnstekjur. Það tæki lágtekjumann mörg hundruð ár að vinna sér inn þessa upphæð,“ sagði Bjartur.

Hann bætti enn fremur við að stefna stjórnvalda ætti ekki að snúa að því að gera þá ríku ríkari á kostnað þeirra fátæku. „Háar tekjur á að skattleggja á réttlátan hátt,“ sagði Bjartur.

„Hér er fjármagnstekjuskattur lægstur af Norðurlöndunum, aðeins 22%, miklu lægri en tekjuskattur einstaklinga,“ sagði Bjartur og bætti við að tækifærin til skattlagningar á þá sem mest eiga séu allt í kringum okkur.

Bjartur Aðalbjörnsson.
Bjartur Aðalbjörnsson. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert