„Lykilatriði“ skorti hjá ákæruvaldinu

Jónas Friðrik Jónsson, verjandi Kjartans Jónssonar (annar f.v.), segir ekki …
Jónas Friðrik Jónsson, verjandi Kjartans Jónssonar (annar f.v.), segir ekki unnt að gefa afslátt af sönnunarkröfum í málinu. mbl.is/Eggert

Jónas Friðrik Jónsson, verjandi Kjartans Jónssonar, sem ákærður er fyrir að hafa látið vin sinn hafa innherjaupplýsingar sem hann hafði aðgang að í starfi sínu sem forstöðumaður hjá Icelandair, segir ákæruvaldið ekki hafa sýnt fram á sekt skjólstæðings síns.

„Það þarf að sýna fram á afhendingu á slíkum upplýsingum,“ sagði Jónas í málflutningsræðu sinni eftir hádegið, en það hefur ákæruvaldið ekki gert í málinu, heldur stuðst við óbeinar sannanir úr samskiptum þeirra Kjartans og Kristjáns Georgs Jósteinssonar, sem eru að mati saksóknara nægilegar til þess að sýna fram á sekt þeirra beggja.

Jónas sagði ekki nægilegt að lesa í einhverja „kryptíska“ tölvupósta á milli manna og krefst þess að skjólstæðingur hans verði sýknaður í málinu. Varðandi fyrsta ákæruliðinn, sem varðar viðskipti haustið 2015, sagði Jónas að ekki hefði verið sýnt fram á hvaða upplýsingum Kjartan hefði átt að deila með vini sínum Kristjáni.

„Það skortir þessi lykilatriði, að það hafi verið til innherjaupplýsingar, að ákærði hafi búið yfir þeim og afhent þær,“ sagði Jónas. Þetta var einnig rauður þráður í málflutningi verjandans hvað hina ákæruliðina varðaði, að ákæruvaldið hefði ekki sýnt fram á að Kjartan hefði haft upplýsingar sem væru þess eðlis að flokkast sem innherjaupplýsingar, upplýsingar sem væru þess eðlis að hafa markverð áhrif á hlutabréfaverð Icelandair Group hf.

„Það er allt á hreyfingu í þessum póstum,“ sagði Jónas um þær upplýsingar sem Kjartan hafði aðgang að í lok janúar 2017, og vörðuðu slakt bókunarflæði hjá Icelandair, en Kjartan sá um að taka þessar upplýsingar saman og senda á helstu stjórnendur.

„Þessar upplýsingar eru ekki svo nákvæmar að þær geti haft áhrif á verð,“ sagði Jónas, sem segir engar innherjaupplýsingar í skilningi laganna hafa legið fyrir innan Icelandair Group fyrr en 31. janúar 2017, en daginn eftir sendi félagið svo frá sér afkomuviðvörun og hlutabréfaverð hrundi.

Kristján Georg gerði samning fyrir hönd fyrirtækisins VIP Travel 27. janúar, sem hann svo hagnaðist á eftir að hlutabréfaverðið lækkaði, og segir Jónas það af og frá að þær upplýsingar sem Kjartan hafi búið yfir á þessum tímapunkti geti flokkast sem innherjaupplýsingar.

„Það er ekkert hægt að gefa afslátt á sönnunarkröfum þegar verið er að ákæra menn fyrir brot sem geta varðað allt að sex ára fangelsi,“ sagði Jónas, sem segir einnig að ekkert í gögnum málsins sanni að Kjartan hafi notið ávinnings af viðskiptum Kristjáns Georgs.

Verði ekki fallist á sýknukröfu, „af einhverjum ástæðum,“ gerir Jónas kröfu um að skjólstæðingur hans fái þann vægasta dóm sem lög leyfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert