„Stórfelld og fordæmalaus“ brot

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari (t.h.) fór yfir ákæruliði málsins í …
Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari (t.h.) fór yfir ákæruliði málsins í rúmlega tveggja klukkustunda langri ræðu sinni og þau gögn sem ákæruvaldið telur að sýni fram á sekt ákærðu. mbl.is/Eggert

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari sagði í munnlegum málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að ekki hefði oft reynt á innherjasvik í sakamálum fyrir íslenskum dómstólum. Þetta mál er raunar það fyrsta, þar sem innherji er sakaður um að láta öðrum manni innherjaupplýsingar í té og einnig það fyrsta, þar sem keðjan framlengist og þriðji maðurinn fær slíkar upplýsingar og hagnýtir sér. Brotin eru „stórfelld og fordæmalaus“ að sögn saksóknara.

Fyrri mál þar sem ákært hefur verið fyrir innherjasvik, áttu sér stað í kringum bankahrunið 2008, þar sem innherjar í fyrirtækjum losuðu sig við eigin hlutabréf á háu verði, er þeir sáu í hvað stefndi.

„Ef það lítur út eins og önd og labbar eins og önd og kvakar eins og önd, þá er það sennilega önd,“ sagði saksóknari um sönnunargögnin í málinu. Hann sagði að það væri ekki svo að til staðar væru snyrtilega innpökkuð sönnunargögn, þar sem innherjaupplýsingar eru sendar sakborninga á milli í tölvupóstum eða að myndskeið séu til af þeim ræða um slíkar upplýsingar.

Sönnunarfærslan snúist þess í stað um að horfa á „toppana á ísjökunum“, en ákæruvaldið telur „alveg ótvírætt“ að þau gögn sem fyrir liggi í málinu geri það hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu séu sekir. Svör þeirra við sakargiftunum hafi að auki verið „óljós, ótrúverðug og fjarstæðukennd“.

Hæpið að skilorðsbinda refsingar Kjartans og Kristjáns

Saksóknari telur að hæfileg refsing fyrir Kjartan Jónsson, innherjann hjá Icelandair, sé tveggja til tveggja og hálfs árs fangelsisvist og að skilorðsbinding sé hæpin í ljósi atvika.

Þá telur saksóknari að hæfileg refsing fyrir Kristján Georg Jósteinsson séu þrjú til þrjú og hálft ár í fangelsi og að skilorðsbinding virðist ekki koma til greina, en Kristján Georg hefur áður hlotið dóm.

Saksóknari segir að refsing Kjartans Bergs Jónssonar ætti að vera 6-9 mánaða fangelsi, hugsanlega skilorðsbundið, þar sem hann er með hreint sakavottorð.

Saksóknari gerir einnig kröfur um að allur ávinningur meintra brota verði haldlagður, en samanlagður er ávinningurinn yfir sextíu milljónir króna.

Önnur viðskipti breyti engu um brotin

Fram kom í máli Kristjáns Georgs Jósteinssonar í gær að hann hefði átt í mun fleiri viðskiptum sem tengdust hlutabréfaverði Icelandair Group hf., en þeim sem ákært er fyrir, og hefði jafnvel tapað á nokkrum þeirra. Saksóknari sagði að þó að Kristján Georg hefði átt fleiri viðskipti, breytti það engu um gögnin er varða ákæruliði málsins sem fjallað er um.

Saksóknari fór yfir ákæruliði málsins í rúmlega tveggja klukkustunda langri ræðu sinni og þau gögn sem ákæruvaldið telur að sýni fram á sekt ákærðu. Meðal annars vísaði hann til töluvert margra tölvupósta á milli þeirra Kjartans og Kristjáns, þar sem afleiðuviðskipti Kristjáns virðast til umræðu og jafnvel þátttaka Kjartans í viðskiptunum sjálfum. Hér að neðan má lesa einn slíkan, sem varða fyrsta lið ákærunnar:

Tölvupóstur frá Kjartani til Kristjáns 13. október 2015.

„skil þig.
Þá er spurning hvort við höfum þetta einsog við ræddum að ég sé með 25% í áhættunni. Ætla að losa peninga sem verða annarsvegar lausir eftir mánuð en eins með svona milljón lausa um mánaðarmótinn sem í raun ætti að duga lang til ef þetta skyldi fara í einhvern mínus. Tel það sem fyrr mjög ólíklegt.

Uppgjörið er 29unda Oct birt. Gæti verið plan að gera þennan samning upp strax eftir þá helgi, ca 4 Nóv?

heyri annars í þér eða hitti á eftir/morgun! kv,KJ“

Á þessum tímapunkti var VIP Travel, félag Kristjáns, búið að gera einn samning við Landsbankann sem var á þá vegu að félagið gat hagnast, yrði væntanlegt uppgjör Icelandair Group gott og hlutabréfaverð hækkaði. Annar samningur var svo gerður daginn eftir að þessi tölvupóstur var sendur, 14. október. Gott uppgjör kom svo frá Icelandair 29. október 2015 og hlutabréfaverð hækkaði. Samanlagður hagnaður VIP Travel af viðskiptunum tveimur voru rúmar 8,5 milljónir eftir skatta.

„Ekkert að fara koma nein góð uppgjör hjá þeim“

Einnig vísaði saksóknari til endurrita af símtölum Kristjáns Georgs við verðbréfamiðlara, sem hann sagði sýna fram á að Kristján hafi haft upplýsingar um stöðu Icelandair sem voru ekki öðrum kunnar.

„Ég held að það sé ekkert að fara koma nein góð uppgjör hjá þeim,“ sagði Kristján Georg sem dæmi við verðbréfamiðlara sinn hjá Landsbankanum sumarið 2016 og sótti það hart að gera örstuttan samning um sölurétt og taka með því skortstöðu í Icelandair Group hf., sem skilaði vonbrigðauppgjöri 27. júlí 2016, sem Kristján, eða félag hans, VIP Travel sem nú heitir Fastrek, hagnaðist á.

Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Fyrrverandi starfsmaður er sagður hafa brotið …
Flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Fyrrverandi starfsmaður er sagður hafa brotið alvarlega gegn trúnaði félagsins. mbl.is/Eggert

Fram kom í máli saksóknara að Kristján Georg var sá eini á markaðnum, sem tók þessa stöðu í tengslum við uppgjör Icelandair Group. Þetta varðar annan lið ákærunnar, en í þessum viðskiptum hagnaðist VIP Travel um rúmar 7,6 milljónir.

Afkomuviðvörun: „Gerðiru eitthvað í þessu annars“

Fyrsti dagur febrúarmánaðar var erfiður fyrir Icelandair Group. Félagið sendi frá sér afkomuviðvörun og næstu daga hrapaði hlutabréfaverð í félaginu. Bæði VIP Travel, félag Kristjáns Georgs, og Kjartan Bergur Jónsson, högnuðust á viðskiptum með afleiður í kjölfarið, en um þetta er fjallað í þriðja lið ákærunnar.

„Að undanförnu hefur orðið breyting í bókunarflæði Icelandair til hins verra. Bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa lækkað umfram spár,“ sagði meðal annars í afkomuviðvörun Icelandair Group hf. þennan dag, en þetta eru upplýsingar sem Kjartan Jónsson tók saman vikulega og sendi á helstu stjórnendur Icelandair.

Kjartan sendi Kristjáni Georg tölvupóst að morgni þessa dags, þar sem afkomuviðvörunin var í viðhengi:

Tölvupóstur frá Kjartani til Kristjáns 1. febrúar 2017:

„Úff hef ekkert talað við þig lengi

Gerðiru eitthvað í þessu annars.. slæ á eftir“

Þetta segir saksóknari sýna, svo hafið sé yfir allan vafa, að Kjartan hafi veitt Kristjáni Georg upplýsingar um væntanleg tíðindi frá Icelandair Group, áður en þau voru nokkrum utan félagsins kunn. Finnur Þór sagði það „algjörlega augljóst mál“ af hálfu ákæruvaldsins, hvað þarna væri verið að ræða.

VIP Travel hagnaðist um tæpar 25 milljónir króna á viðskiptum með afleiður byggðar á hlutabréfaverði Icelandair Group eftir að hlutabréfaverð félagsins hrundi. Til viðbótar hagnaðist svo Kjartan Bergur Jónsson um rúmar 20 milljónir eftir skatta, á sömu viðskiptum.

Saksóknari sagði einnig að sá hraði sem Kjartan Bergur hafði á við að leita þess að gera afleiðusamning, eftir fund sinn með Kristjáni Georg, sýni að hann hafi vitað að draga myndi til tíðinda hjá félaginu mikið fyrr en 7. febrúar, þegar uppgjör var væntanlegt.

Þá sagði Finnur Þór að það væri augljóst af símtölum Kjartans Bergs við verðbréfamiðlara, að hann hefði ekki minnstu reynslu eða þekkingu á slíkum viðskiptum, en væri samt að kaupa stóran og dýran sölurétt.

Munnlegur málflutningur verjenda ákærðu fer fram eftir hádegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert