Ríkið bæti stöðu sína á kostnað sveitarfélaga

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og bæjarstjóri i Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga og bæjarstjóri i Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

Al­dís Haf­steins­dótt­ir, formaður Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, segir að þær upplýsingar sem sambandið hafi fengið frá fjármálaráðuneytinu í síðustu viku hafi falist í því að þingsályktunartillaga þess efnis að skerða eigi fram­lög til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga hafi verið fullgerð.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í Morgunblaðinu í dag viðbrögð, ummæli og ályktun sveitarstjórnarfólks um mögulega skerðingu á framlagi til jöfnunarsjóðs vera úr öllu samhengi við efni málsins og að ekki sé um formaða tillögu að ræða.

„Ég átta mig ekki alveg á þessum orðum af því að það sem við fengum að vita var að það væri verið að skrifa þetta [skerðinguna] inn í þingsályktunartillöguna og ganga frá henni, sama dag og við vorum kölluð í ráðuneytið,“ segir Aldís í samtali við mbl.is.

Sambandi íslenskra sveitarfélaga var tilkynnt á fundi með fulltrúum fjármálaráðuneytisins í síðustu viku að til standi að skerða fram­lög til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga um 3,3 millj­arða á næstu tveim­ur árum í rík­is­fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2020-2024.

Stjórn sambandsins samþykkti í kjölfarið harðorða bókun vegna skerðinganna og krefst sambandið viðræðna við ráðherra. Ef þær viðræður leiði ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir sveitarfélögin hyggst sambandið grípa til róttækra aðgerða.

Sambandið óskaði í morgun eftir fundi, bæði með fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og vonast Aldís að með beinu samtali við ráðherra finnist lausn á málinu.

„Það er eitthvað fullkomlega óeðlilegt við það að þegar við erum með tvö stjórnsýslustig í þessu landi sem sameiginlega standa að hagstjórninni og opinberum fjármálum, að þá ætli annar aðilinn að bæta sína stöðu en rýra stöðu hins um leið,“ segir Aldís.

„Það er það sem við erum að mótmæla en við erum til í viðræður og um það snýst bókun sambandsins. Við viljum setjast niður og ræða með hvaða hætti við getum náð ásættanlegri lendingu í þessu máli.“

Þá segir Aldís að ef þingsályktunartillagan fái þinglega meðferð þar sem gert er ráð fyrir skerðingu á framlögum til sjóðsins bindi sambandið vonir við að þingmenn taki til sinna ráða og komi í veg fyrir að skerðingin verði að veruleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert