Hyggst nálgast málið af yfirvegun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við stöndum hér frammi fyrir mjög vandasömu en mikilvægu verkefni. Í erfiðum málum eins og hér um ræðir er niðurstaðan sjaldnast einsýn og það á ekki að láta eins og svo sé,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra í umræðum á Alþingi í dag um munnlega skýrslu forsætisráðherra um viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í síðustu viku þar sem meðal annars var fjallað um skipun dómara í Landsrétt.

Rakti hún forsögu málsins og meðal annars það að niðurstaða Mannréttindadómstólsins stangaðist á við dóm Hæstaréttar, æðsta dómstóls landsins. „Ég hef þegar sagt að ég telji eðlilegt að óska eftir endurskoðun á fordæmalausum dómi með minnihlutaáliti hjá yfirdeild dómsins til að fá fram skýra afstöðu til álitaefnisins um lögmæti skipan dómara við Landsrétt,“ sagði Þórdís. Hún hefði heyrt sjónarmið um möguleg neikvæð áhrif þess biðtíma sem endurskoðunin hefði óhjákvæmilega í för með sér. Um það hefði hún þetta að segja:

„Í mínum huga er þetta ekki endilega spurning um annaðhvort eða, en hér þarf að eiga sér stað yfirvegað hagsmunamat með heildarhagsmuni íslenskrar stjórnskipunar og réttarkerfisins í huga. Í þeirri stöðu sem er uppi er mikilvægt að við öll sem erum hluti löggjafarvaldsins á Alþingi reynum að hefja þetta mál upp úr skotgröfum hinna hefðbundnu stjórnmála og treysta stoðir íslensks réttarkerfis.“ Mikilvægt væri að þingmenn tækju höndum saman við að leysa úr stöðunni sem komin væri upp vegna Landsréttar.

Lausnirnar hvorki einfaldar né augljósar

„Ég hef undanfarna daga fundað með ýmsum aðilum, þar á meðal fulltrúum Landsréttar og dómstólasýslunnar. Ég hef rætt við sérfræðinga og fylgst með umræðum á hinum pólitíska vettvangi. Mörgum sjónarmiðum er haldið á lofti og margar leiðir hafa verið nefndar, allt frá kaldri praktík yfir í heita pólitík, en allir virðast sammála um að lausnirnar séu hvorki einfaldar né augljósar. Ég er þó allt að einu viss um að með tímanum komumst við nær ákveðnum skilningi og getum brugðist af skynsemi við þeirri stöðu sem uppi er.“

Þórdís sagði að eins og staðan væri í augnablikinu væri engin ein augljós leið með augljósum fararskjóta á augljósan áfangastað sem hægt væri að fara. „Það væri enda óráð að hafa valið sér leiðina og áfangastaðinn strax. Það sem skiptir mestu máli í ferðalaginu fram undan er að hafa valið sér leiðarljós. Mitt leiðarljós er að nálgast þetta verkefni af yfirvegun, heildstætt og í samráði til að tryggja virkni dómstólanna, traust á dómskerfinu og réttaröryggi í landinu. Meginþungi í ákvarðanatöku minni fram undan mun lúta að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert