Rannsaka ferðir Tarrant um Ísland

Talið er að Tarrant hafi komið til Íslands fyrir tveimur …
Talið er að Tarrant hafi komið til Íslands fyrir tveimur árum. AFP

Embætti ríkislögreglustjóra rannsakar nú ferðir hryðjuverkamannsins Brenton Harris Tarrant, sem myrti 50 í tveimur moskum í Christchurch í Nýja-Sjálandi á föstudag, um Ísland. Frá þessu er greint á vef Ríkisútvarpsins.

Talið er að Tarrant hafi komið til Íslands fyrir tveimur árum, en fyrir voðaverkið sendi hann frá sér stefnuskrá upp á 78 síður þar sem hann sagði frá ferðalögum til annarra landa, á borð við Pakistan, Tyrkland, Norður-Kóreu og Ísland.

Annað sem kemur fram í stefnuskrá Tarrant er að hann hafi átt í samskiptum við Anders Behring Breivik, sem myrti 69 ungmenni í Útey í Noregi árið 2011, og fengið samþykki félaga Breivik áður en hann lét til skarar skríða í Christchurch.

„Embætti ríkislögreglustjóra getur staðfest að íslenskum lögregluyfirvöldum hafa borist upplýsingar og erindi vegna hryðjuverkanna í Christchurch, meðal annars frá nýsjálenskum yfirvöldum. Unnið er að því að kanna með ferðir Brenton Tarrrant til Íslands árið 2017. Frekari upplýsingar verða ekki veittar að svo komnu,“ segir í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn RÚV vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert