„Af hverju er neikvætt að vera fatlaður?“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, á málþingi bandalagsins um …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, á málþingi bandalagsins um kjaramál og réttlæti sem haldið var í dag. mbl.is/Eggert

Af hverju er það neikvætt að vera fatlaður?“ spurði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, þegar hún ávarpaði málþing ÖBÍ í dag þar sem fjallað var um tekjur, jöfnuð, kjaragliðnun, skattbyrði og samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Þuríður sagði orð líkt og öryrki, fatlaður, fátækur vera neikvætt gildishlaðin en eru eftir sem áður veruleiki margra í dag. „Í gegnum tíðina hefur samfélagið hlaðið neikvæðri merkingu á þessi orð þannig að afleiðingin er sú að sá sem er öryrki og ber fötlun skammast sín og leitar leiða til að kalla fötlun sína eitthvað allt annað, svo sem hreyfihömlun, sjónskerðingu, lesblindu, ADHD, gigt, langvarandi sjúkdóm, bara allt annað en það að auðkenna sig einfaldlega sem fatlaðan einstakling.“

Þuríður spurði jafnframt hvað það væri sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin skeyti lítið um öryrkja. „Af hverju er það ljótt og neikvætt að vera fatlaður? Eðli málsins samkvæmt leiðir fötlun oft til þess að einstaklingar missa starfsorku og færni til að stunda atvinnu og jafnvel til að sjá um sig í daglegu lífi. Og þá er gott að eiga almannatryggingakerfi og jafnvel örlítinn lífeyrissjóð.“ Þuríður segir það hins vegar sorglega staðreynd að raunin sé sjaldan sú að öryrkjar geti framfleytt sér með reisn eftir því sem kerfið skammtar þeim.

Kjör fatlaðs fólks verði leiðrétt og bætt

„Það er í mínum huga umhugsunarvert að það kerfi sem við komum upp í þeim tilgangi að veita skjól þeim einstaklingum sem fæðast fatlaðir eða fatlast á lífsleiðinni, skuli vera okkar mesta þrátefli við stjórnvöld í dag.“ Af þessum sökum sé það mesta baráttumál Öryrkjabandalagsins að fá kjör fatlaðs fólks leiðrétt og bætt.

„Það er umhugsunarvert að samfélagið refsi fólki með skömminni og smánarlegri framfærslu ef það veikist alvarlega af lífsógnandi sjúkdómi, lendi í slysi eða verði fatlað vegna langvarandi álags á annaðhvort eða bæði líkama og sál, eða einfaldlega fæðast inn í þennan heim fatlað,“ segir Þuríður. 

Erfitt að kvitta upp á 75% örorkumat

Þuríður talaði einnig um sína eigin reynslu af því að lifa sem öryrki og lýsti hún því hvernig henni fannst afar erfitt að „kvitta upp á 75% örorkumat“ örfáum mánuðum eftir að hún lamaðist. „Ég skildi það ekki fyrr en seinna. Það að vera öryrki, rann upp fyrir mér, að ég væri stimpluð og átti á hættu að vera ekki lengur álitinn nýtur þjóðfélagsþegn. En af hverju er svona ljótt að vera öryrki? Hver setti á þennan hóp að hann ætti að vera fátækastur? Hvaða orðræðu erum við alin upp við og hverju viðhöldum við? Hvað skapar ljótt viðhorf í garð öryrkja og hverjir eru það?

Þuríður segir að ljóst sé að eitthvað sé að í samfélagsgerðinni ef börn eru látin finna að þau eða foreldrar þeirra passi ekki í samfélagsgerðina og séu með stimpil vegna fátæktar. Það gagnast ekki barninu að skemma sjálfsmynd þess. Það getur ekki gagnast neinu samfélagi.

„Ekki skömm okkar að vera fötluð“

Tekjur, jöfnuður, kjaragliðnun og skattbyrði voru til umfjöllunar á málþinginu og í ávarpi sínu sagði Þuríður að krafa fatlaðs og langveiks fólks að geta lifað á örorkulaunum frá Tryggingastofnun ríkisins sé réttlát krafa.

Það er ekki skömm okkar að vera fötluð eða langveik, heldur yfirvalda að stimpla með smán og finnast eðlilegt að fátækt sé á Íslandi og það sé fatlaðs og langveiks fólks að búa við hana.“ Þessu vill Þuríður snúa við. „Skömmin er þeirra sem láta þetta viðgangast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert