Fossvogsbúar kvarta undan útigangsmönnum

Íbúar í Fossvoginum kvarta yfir því að útigangsmennirnir sitji ölvaðir …
Íbúar í Fossvoginum kvarta yfir því að útigangsmennirnir sitji ölvaðir við gönguleiðir í hverfinu og þeim fylgi sóðaskapur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Íbúar í Fossvogshverfinu höfðu samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og kvörtuðu yfir erlendum útigangsmönnum á ferli í hverfinu.

Að sögn íbúanna sitja þeir ölvaðir við gönguleiðir og þeim fylgi sóðaskapur. Íbúarnir telja þá hafa stolið einangrun o.fl. frá íbúum í hverfinu og þeir haldi til í skógi þar nærri. Íbúar segjast upplifa óöryggi og þora varla að hafa börn sín ein utandyra, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í nótt var haft samband við lögreglu af hóteli í hverfi 105 þar sem fólk hafði áhyggjur af hótelgesti sem hafði farið á salernið og svaraði ekki er félagar hans fóru að vitja um hann.  Næturvörðurinn hafði ekki lykil og brutu félagar hans upp hurðina. Ekkert amaði að salernisgestinum en hann hafði sofnað ölvunarsvefni og svaraði því ekki.

Tilkynnt var til lögreglu um líkamsárás í Kópavogi, hverfi 201, síðdegis í gær en maður sem hafði verið skorinn kom inn í verslun og bað um aðstoð. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar en vildi enga aðstoð frá lögreglu.

Lögreglunni barst tilkynning í nótt um að rúða hefði verið brotin í skóla í hverfi 105.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert