Mætti með svifryk í pontu

Marta Guðjónsdóttir heldur á svifrykinu.
Marta Guðjónsdóttir heldur á svifrykinu. Mynd/Skjáskot

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mætti með svifryk í pontu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í umræðu um tillögu flokksins um aðgerðir í loftslagsmálum.

Hún sagði að um væri að ræða mánaðargamalt svifryk sem hefði safnast saman í bílskúr í Reykjavík af einum bíl. „Þið getið ímyndað ykkur að þegar við erum ekki að skoða gæði malbiks betur en raun ber vitni þá geta þetta orðið afleiðingarnar og þetta fer út í andrúmsloftið,“ sagði hún og lét svifrykið sem var í plastboxi ganga til borgarfulltrúa.

„Það þýðir ekki að skella endalaust skollaeyrum við því að við þurfum að skoða gæði sands og salts og malbiks í borginni.“

Áður hafði Marta talað um að efni sem notað er til hálkuvarna í borginni hafi mengandi áhrif og að gera verði þá kröfu að sandurinn og saltið sem er notað standist gæðastaðla. Gera þurfi úttekt á þeim efnum.

Hún sagði svifryksmengun vera orðna að alvarlegu heilsufarsvandamáli og að ekkert bendi til þess að það fari minnkandi.

Aukið svifryk þrátt fyrir þrif

Sigurbjörg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, veitti andsvar og sagði að í síðasta mánuði hafi allar stofnbrautir í Reykjavík verið þrifnar og síðan rykbundnar. Fleiri götur hafi einnig verið rykbundnar. Samt sem áður hafi svifryk farið yfir heilsuverndarmörk. „Það er ekki bara þessi uppsafnaði skítur sem borgarfulltrúinn vill meina að sé að orsaka svifrykið heldur er það umferðin og við megum ekki skella skollaeyrum við því og við verðum að taka ábyrgð sem kjörnir fulltrúar og einstaklingar.“

Hún sagði gæði malbiks skipta máli en ekki öllu máli. Ekki sé hægt að leysa vandann vegna svifryksins nema að ávarpa ferðavenjur og þá miklu bílaumferð sem er í Reykjavík. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert