Verða að virða lög og reglur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er stjórnarskrárvarinn réttur manna að mótmæla en öll skulum við fylgja lögum og reglum,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni, þingmanni Miðflokksins.

Ólafur spurði ráðherrann um málefni hælisleitenda og einnig um viðbrögð við mótmælum hælisleitenda og stuðningsmanna þeirra á Austurvelli að undanförnu. Spurði þingmaðurinn Þórdísi hvort hún deildi áhyggjum hans af því að Reykjavíkurborg hafi leyft mótmælendum að tjalda á Austurvelli og æðstu menn kirkjunnar að Dómkirkjan væri notuð sem náðhús í mótmælum þar sem kallað væri eftir opnum landamærum.

Varðandi málefni hælisleitenda gerði Ólafur það að umtalsefni að fulltrúar dómsmálaráðuneytisins hefðu upplýst fjárlaganefnd Alþingis um að vegna aukins fjölda umsókna um hæli hér á landi væri hætta á að útgjöld vegna hælisleitenda færu allt að 2 milljörðum króna fram úr þeim 3 milljörðum sem fjárlög gerðu ráð fyrir til málaflokksins.

Ólafur ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.
Ólafur ísleifsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís sagði að ekki hefði verið gripið til aðgerða vegna stöðunnar en hún hefði verið upplýst um málið. „Núna erum við að vinna að því í ráðuneytinu að kalla eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um hvað sé mögulega hægt að gera til að bregðast við þessari stöðu, fara yfir það og leggja í framhaldinu til ákveðnar tillögur.“

Vandinn sem hefði verið við að eiga undanfarin ár og virtist enn vera til staðar væri að finna hvernig kerfið gæti tekið á því þegar bregðast þyrfti þannig við að frekari þunga og kraft vantaði í að afgreiða mál hraðar til að koma í veg fyrir að fjöldi fólks þyrfti að bíða lengi eftir afgreiðslu sinna mála. Viðurkennt væri að að allra hagur væri að afgreiða mál eins skjótt og hægt væri á sama tíma og þau væru vel unnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert