Smíða nýja göngubrú eftir hrun

Brúin áður en hún hrundi.
Brúin áður en hún hrundi. Ljósmynd/Borgþór Freysteinsson

Vegagerðin stefnir á að ljúka við smíði nýrrar göngubrúar yfir Jökulsá í Lóni við Kollumúla í júní. 

Að sögn Arons Bjarnasonar, deildarstjóra hjá Vegagerðinni, er verkefnið í startholunum. Sérfræðingar munu ásamt brúarsmiði skoða aðstæður á svæðinu á fimmtudaginn. Ef allt gengur upp verður brúin komin í gagnið fyrir 20. júní.

Gert er ráð fyrir því að verkið kosti nokkuð yfir tuttugu milljónir króna. Of snemmt er þó að segja til um kostnað því aðstæður hafa ekki verið metnar.

Gæti endað með ósköpum 

Jón Bragason hjá Ferðafélagi Austur-Skaftafellssýslu telur að brúin hafi hrunið í miklu óveðri á gamlársdag og hefur hefðbundin gönguleið frá veginum að Múlaskála, sem er í eigu ferðafélagsins, verið ófær síðan þá. 

Þessi mynd var tekin skömmu eftir að brúin hrundi um …
Þessi mynd var tekin skömmu eftir að brúin hrundi um áramótin. Ljósmynd/Jón Bragason

Jón er hæstánægður með að smíðin sé að hefjast og nefnir að ef ekkert yrði gert á svæðinu gætu hlutirnir endað með ósköpum. Fólk sem kemur labbandi að norðan frá Eyjabökkum getur lent í vandræðum ef það kemst ekki yfir ána. „Það skelfilegasta sem gerðist væri það ef einhverjum dytti í hug að reyna að vaða ána,“ segir hann.

Hann bætir við að Lónsöræfi séu ein mesta náttúruperla Íslands en ekki er fært á svæðið á venjulegum fólksbílum. Svæðið sé því laust við „massatúrisma“.  

Aðspurður segir Jón afar mikilvægt að fá brúna í gagnið fyrir sumarið, enda skipuleggja margir ferðir þangað á sumrin. Sumir keyra inn á Illakamb og labba um svæðið án þess að gista á meðan aðrir dvelja þar í nokkrar nætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert