13% upplifa áreiti af þjónustuþegum

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar sker sig úr þegar skoðaðar eru tölur úr viðhorfskönnun meðal starfsmanna borgarinnar þegar litið er til þess liðar er snýr að einelti, áreitni og fordómum.

Starfsmenn sviðsins hafa hæsta hlutfall starfsmanna sem segist verða fyrir einelti af hálfu samstarfsfólks og þjónustuþega. Jafnframt hæsta hlutfall er varðar áreitni af hálfu samstarfsfólks, en næsthæsta hlutfall starfsmanna sem segjast verða fyrir áreitni þjónustuþega.

Um 22,7% starfsmanna umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar segjast verða fyrir áreiti af hálfu þjónustuþega. Þá segjast 25,5% starfsmanna íþrótta- og tómstundasviðs og 25,6% starfsmanna velferðarsviðs einnig verða fyrir áreiti frá þjónustuþegum.

Starfsmenn menningar- og ferðamálasviðs upplifa slíkt áreiti í minna mæli og segjast 11,4% verða fyrir áreiti frá þjónustuþegum. Það sama segja 9,5% starfsmanna ráðhússins og 6,7% starfsmanna skóla- og frístundasviðs. Meðaltal borgarinnar í heild er 13%.

Áreiti samstarfsfólks

Þegar kemur að áreitni af hálfu samstarfsfólks segjast 4,6% starfsmanna borgarinnar verða fyrir slíku, en hæsta hlutfallið er á umhverfis- og skipulagssviði þar sem 9,1% starfsmanna segjast upplifa slíkt.

Hlutfallið er mun minna á öðrum sviðum borgarinnar, 5% hjá íþrótta- og tómstundasviði, 4,5 hjá menningar- og ferðamálasviði, 4,1% hjá skóla- og frístundasviði, 4,6% hjá velferðarsviði og 5% starfsmanna ráðhússins.

Einelti kollega og þjónustuþega

Meðal starfsmanna borgarinnar segjast 2,8% hafa orðið fyrir einelti frá samstarfsfólki að meðaltali. Er þetta vandamál mest hjá umhverfis- og skipulagssviði þar sem 4,4% segjast verða fyrir einelti kollega sinna.

Þá segjast 3,1% starfsmanna íþrótta- og tómstundasviðs lenda í slíku, 1,5% hjá menningar- og ferðamálasviði, 2,6% hjá skóla- og frístundasviði, 3,1% hjá velferðarsviði og 3,1% starfsmanna ráðhússins.

Einnig er spurt um einelti af hálfu þjónustuþega í viðhorfskönnun borgarinnar og svara 1,9% að þau verði fyrir því, algengast er þetta á umhverfis- og skipulagssviði þar sem 5,2% segjast finna fyrir einelti af hálfu þjónustuþega og 4,4% á íþrótta- og tómstundasviði, en 3,7% starfsmanna velferðarsviðs.

Mun minna er um slíkt einelti á öðrum sviðum og er um að ræða 1,5% á menningar- og ferðamálasviði, 0,8% á skóla- og frístundasviði og 1% starfsmanna ráðhússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert