Búið að opna Súðavíkurhlíð og Öxnadalsheiði

Þæfingur er nú á Súðavíkurhlíð, en búið er að opna …
Þæfingur er nú á Súðavíkurhlíð, en búið er að opna veginn á ný eftir að snjóflóð féll á hann. Ljósmynd/Vegagerðin

Búið er að opna á umferð um Súðavík­ur­hlíð, en veginum var lokað í nótt eftir að snjóflóð féll að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Einnig er búið að opna Öxna­dals­heiði á ný, en veg­in­um var lokað í gær­kvöldi vegna stór­hríðar.

Á Vestfjörðum er þæfingur á Súðavíkurhlíð, Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Klettshálsi. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir er á öðrum leiðum og eitthvað um éljagang.

Á Vesturlandi er hálka og snjóþekja á norðanverðu Snæfellsnesi, en hálkublettir á nesinu sunnanverðu. Hálka er svo á Mýrunum, Holtavörðuheiði og Bröttubrekku. Hálka eða hálkublettir eru í Borgarfirði.

Það geng­ur á með suðvestan­kalda og dimm­um élj­um á vest­an­verðu land­inu og eru öku­menn því hvatt­ir til að aka var­lega, sér­stak­lega á fjall­veg­um. Í nótt snýst í vax­andi norðaustanátt með snjó­komu og hríðarveðri á aust­an­verðu land­inu og lík­lega munu verða sam­göngu­trufl­an­ir þar á morg­un, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Veður­stofu Íslands.

Á Norðurlandi eru hálkublettir á láglendi, en snjóþekja á fjallvegum. Éljagangur og skafrenningur er svo allvíða í Skagafirði og hálka á flestum útvegum.

Á Austurlandi er  hálka á Vatnsskarði eystra, en annars eru vegir mikið til auðir.

Á Suðausturlandi er greiðfært frá Höfn og vestur að Lómagnúp, en hálka eða hálkublettir eftir það í Vík og yfir Reynisfjall.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á öllum leiðum á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert