Súðavíkurhlíð lokuð vegna snjóflóðs

Súðavíkurhlíð. Snjóflóð falla iðulega á veginn milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar …
Súðavíkurhlíð. Snjóflóð falla iðulega á veginn milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar og lokast hann oft vegna þess eða snjóflóðahættu. mbl.is/RAX

Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í nótt vegna snjóflóðs og eins er Öxnadalsheiði lokuð en veginum var lokað í gærkvöldi vegna stórhríðar. Þetta kemur fram í Twitter-færslum Vegagerðarinnar.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu. Ákvörðun um opnun vegarins verður tekin með morgninum.

Það gengur á með suðvestankalda og dimmum éljum á vestanverðu landinu og ökumenn því hvattir til að aka varlega, sérstaklega á fjallvegum. Í nótt snýst í vaxandi norðaustanátt með snjókomu og hríðarveðri á austanverðu landinu og líklega munu verða samgöngutruflanir þar á morgun, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Spáð er suðvestan 8-15 m/s og éljum en skýjuðu með köflum og úrkomulitlu austanlands. Hægari sunnanátt í kvöld. Hiti kringum frostmark að deginum, en sums staðar vægt frost fyrir norðan.

Gengur í norðaustan 18-23 með slyddu eða rigningu suðaustan til í nótt, en síðar einnig norðaustan til með snjókomu eða skafrenningi þar. Snýst í norðvestan 18-25 með éljagangi austan til á morgun, en annars hægari vestan- og norðvestanátt og él. Hlýnar við austurströndina á morgun.

Á föstudag:
Gengur í norðan og norðvestan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi á A-verðu landinu, en mun hægara og úrkomulítið V-til. Snýst í vestan 10-18 með éljum V-lands undir kvöld, en dregur þá jafnframt úr vindi og ofankomu eystra. Hiti kringum frostmark. 

Á laugardag:
Sunnan 5-10 m/s og úrkomulítið framan af degi, en gengur síðan í sunnan og suðvestan 10-15 með snjókomu eða slyddu, fyrst SV-lands. Kólnandi veður. 

Á sunnudag:
Norðvestlæg átt með éljum eða snjókomu, en rofar til fyrir sunnan. Lægir um kvöldið og léttir til. Hiti kringum frostmark. 

Á mánudag:
Vaxandi sunnanátt, hlýnar í veðri og fer að rigna, en lengst af bjartviðri NA-til. 

Á þriðjudag:
Snýst í suðvestanátt með éljum, en léttir til fyrir austan og kólnar aftur. 

Á miðvikudag:
Líklega stíf suðvestanátt með slyddu eða rigningu en þurrt að kalla fyrir austan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert