Minni snjókoma en spáð var

Reiknað er með minni snjókomu á höfuðborgarsvæðinu en spáð var.
Reiknað er með minni snjókomu á höfuðborgarsvæðinu en spáð var. mbl.is/​Hari

Snjókoman á höfuðborgarsvæðinu það sem eftir lifir dags verður líkast til mun minni er veðurspár gerðu ráð fyrir í gær.

Þetta segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, og bætir við að ólíklegt sé að snjókoman muni hægja mikið á umferðinni.  

Spáð er allhvössum vindi fram á kvöldið. „Það verður snjókoma og leiðindaveður frá því núna eftir kaffið fram á kvöldið en það ætti ekki að valda miklum vandræðum,“ segir hann.

Hann nefnir að allskonar veður sé á landinu og að mjög djúp lægð sé komin austur fyrir Langanes. „Í kjölfarið á henni er norðvestan stormur eða rok sem lemur á austurhelmingnum á landinu.“

Þessi mikli vindur mun standa fram á nótt. Norðanáttinni fylgir snjór sem er mestur á norðanverðu landinu, þar á meðal á Akureyri.

Að sögn Teits er spáð skaplegra veðri á sunnan- og vestanverðu landinu á morgun.

Snjóað hefur mikið á Akureyri í dag.
Snjóað hefur mikið á Akureyri í dag. mbl.is/Þorgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert