„Vonum að fólk fylgist vel með veðri“

Von er á krappri lægð yfir landið.
Von er á krappri lægð yfir landið. mbl.is/​Hari

„Við vonum að fólk fylgist vel með veðri og fari kannski í fyrra fallinu heim úr vinnu því umferðin verður þyngri. Ef fólk er á ferðinni mikið eftir fjögur þá gæti ferðin heim úr vinnu orðið lengri en venjulega,“ segir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri slökkviliðsins. Von er á krappri lægð yfir landið og færð gæti spillst víða um land þar með talið á höfuðborgarsvæðinu.

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula og gula viðvörun fyrir landið.

„Við erum aðeins búin að undirbúa okkur. Ef ferðin daprast mikið þá hægist á öllu hjá okkur. Við erum búin að bæta við tveimur bílum því við reiknum með að flutningar taki lengri tíma eftir klukkan fjögur,“ segir Sigurjón.

Á föstudögum er alla jafna mikill erill í sjúkraflutningum og eru þeir á bilinu 70 til 80 talsins. Upp úr hádeginu voru þeir orðnir um 50 talsins. 

Hellisheiði gæti lokast um kl. 16

Nokkrar líkur eru á að vegurinn yfir Hellisheiði geti lokað tímabundið eftir kl. 16 í dag. Hugsanlega getur vegurinn um Þrengsli einnig lokað á svipuðum tíma. 

Éljabakki gengur yfir suðvestanvert landið síðdegis með snjó um tíma og það hvessir og skefur vestan við hann. Undir kvöld á milli kl. 17 til 19 er spáð 15-20 m/s og verður blint sem sagt austur yfir fjall. Frá kl. 16 til 22 má reikna með sviptivindum frá Öræfum austur á Hérað, 40-50 m/s í hviðum. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. 

Sigurjón bendir á að það er enn óvíst hvar lægðin lendir og því gott að fylgjast vel með. Höfuðborgarsvæðið gæti sloppið að hluta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert