Aron og Embla vinsælustu nöfnin

Ekki er vitað hvort vinsældir knattspyrnumannsins Arons Einars Gunnarssonar hafi …
Ekki er vitað hvort vinsældir knattspyrnumannsins Arons Einars Gunnarssonar hafi veitt foreldrum innblástur við nafnaval á síðasta ári, en Aron er vinsælasta nafngjöf drengja. AFP

Vinsælasta nafn stúlkna árið 2018 var Embla og í tilfelli drengja var það Aron. Fengu 26 stúlkur það fyrra og 51 drengur það síðarnefnda, að því er fram kemur í skýrslu Þjóðskrár Íslands. Er dreifing meiri með nafngjöfum stúlkna en drengja.

Á síðasta ári fengu 24 stúlkur nafnið Emilía, 23 nöfnin Freyja, Hekla eða Sara, 21 nafnið Lilja, 19 nafnið Hanna, 18 nöfnin Alexandra, Anna og Katla.

Meðal drengja var Alexander næstvinsælast og fengu 37 það nafn. Þá fengu 32 nafnið Emil, 31 nöfnin Kári eða Viktor, 28 nafnið Ólíver, 27 nafnið Guðmundur, 26 nafnið Jökull, 25 nafnið Mikael og 23 nafnið Jón.

Jón enn algengt

Jón er jafnframt algengasta karlmannsnafnið og bera 5.789 það nafn. Næst er það Sigurður og svo Guðmundur, en um 4.500 karlmenn heita þessum nöfnum. Þá eru 3.562 sem heita Gunnar, 3.086 Ólafur, 2.784 Einar, 2.697 Magnús, 2.608 Kristján, 2.493 Stefán og loks 2.300 Jóhann.

Í tilfelli kvenna er Anna algengast og eru 5.925 konur sem heita því nafni. Þar á eftir eru 5.184 konur sem heita Guðrún og 3.990 Kristín. Konur sem bera nafnið Sigríður eru 3.723, Margrét 3.266, Helga 3.103, Sigrún 2.873, Ingibjörg 2.402, María 2.277 og Jóhanna 2.184.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert