Taka daginn í viðræðurnar

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins mæta í húsakynni ríkissáttasemjara í morgun. Hannes …
Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins mæta í húsakynni ríkissáttasemjara í morgun. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri samtakanna. mbl.is/Hari

Fundur hófst klukkan 10:00 í húsakynnum ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Landssambands íslenskra verzlunarmanna og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins.

Gert er ráð fyrir að fundurinn standi til klukkan 16:00. Fundað var síðast á fimmtudaginn. Upphaflega stóð þá til að fundurinn yrði aðeins frá klukkan 10:00 til 11:00 en fljótlega eftir að hann hófst var ákveðið að hann stæði til klukkan 17:00.

Viðræðufundinum var þannig breytt í vinnufund. Þar hefur væntanlega verið rætt um eitthvert útspil í deilunni. Ekki hefur verið greint nánar frá því hvað nákvæmlega var rætt en fjölmiðlabann var sett á skömmu eftir að fundurinn hófst.

Fundað var fram á kvöld á fimmtudaginn en ljóst er að ekki hefur náðst nægur árangur á fundinum til þess að sólarhringsverkfalli um 2.000 félaga í Eflingu og VR á föstudaginn yrði afstýrt. Fundurinn í dag er framhald af síðasta fundi.

Fjölmiðlabannið þýðir að deiluaðilar mega ekki tjá sig við fjölmiðla um innihald viðræðnanna en Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði við mbl.is á föstudaginn að það væri „allt annað hljóð í mönnum og menn eru að nálgast þetta á lausnarmiðaðri hátt. Þetta er leysanlegt verkefni.“ Spurður um framhaldið sagði hann:

„Verður maður ekki bara að vera bjartsýnn á að þetta takist?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert