Píratar hafna tilskipun um höfundarrétt

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir flokkinn vilja hafna tilskipun ESB …
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir flokkinn vilja hafna tilskipun ESB um höfundarrétt. mbl.is/Eggert

„Þingflokkur Pírata mun beita sér gegn því að nýsamþykkt höfundarréttartilskipun Evrópusambandsins verði tekin upp í EES- samninginn óbreytt,“ að því er segir í fréttatilkynningu frá flokknum. Umdeild tilskipun um höfundarrétt var samþykkt á Evrópuþingi í dag.

„Þessi tilskipun kemur verr út fyrir lítil ríki en stór ríki og verr út fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki en stór fyrirtæki. Það mælir allt gegn því að þetta verði tekið upp í EES-samningin,“ segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata í samtali við mbl.is.

Þá segir hann tilskipunina till þess fallna að hamla nýsköpun og þróun, ekki síður netfrelsi einstaklinga.

Tilskipunin mun meðal annars hafa áhrif á Twitter, Youtube og Google News þar sem þeim verður gert að fjarlægja efni notenda sem samræmist ekki nýju löggjöfinni. Sumir hafa lýst áhyggjum af því að þetta geti leitt til ritskoðunar.

Kemur til greina að beita neitunarvaldi

Smári segir að enn sé nokkur tími þar til málið fari fyrir sameiginlegu EES-nefndina sem ákveður hvaða gerðir verða teknar upp í samningin, enda á ráðherráð Evrópusambandsins eftir að samþykkja tilskipunina.

Spurður hvernig flokkurinn hyggst beita sér þar sem hann hafi ekki beina aðkomu að fyrrnefndri nefnd, segir þingmaðurinn Pírata ætla að brýna fyrir stjórnvöldum mikilvægi þess að hafna tilskipuninni. Komi til þess að málið fari fyrir Alþingi kemur vel til greina að beita neitunarvaldi með því að hafna því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, að sögn Smára.

„Með því að láta fyrirtæki bera ábyrgð á því efni sem birtist, í stað þess að ábyrgðin sé aðeins notendanna, er verið að takmarka frelsi íbúa Evrópu til að tjá sig. Líkja mætti þessu við að símafyrirtæki á Íslandi yrðu skikkuð til að hlera öll símtöl til að tryggja að aðeins þóknanlegar upplýsingar kæmust á milli manna,“ segir í fréttatilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert