Fjórum bjargað úr eldsvoða á Ísafirði

Lögreglumenn á Ísafirði voru í eftirlitsferð í nótt þegar þeir …
Lögreglumenn á Ísafirði voru í eftirlitsferð í nótt þegar þeir sáu reyk stíga upp af viðarhúsi. Vöktu þeir þá sem inni voru og komu þeim út. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglumenn á Ísafirði björguðu fjórum út úr húsi um klukkan þrjú í nótt eftir að eldur kom upp á sólpalli hússins. Lögreglumennirnir voru í eftirlitsferð þegar þeir sáu reyk stíga upp af húsinu, sem er viðarhús. 

„Þetta var þó nokkuð, þannig, en fór ákaflega vel. Það kviknaði í palli utanhúss sem náði að teygja sig inn í húsið og fara inn í klæðningu,“ segir Þorbjörn Jóhann Sveinsson, slökkviliðsstjóri á Ísafirði. Alls tóku 18 slökkviliðsmenn þátt í slökkvistarfi, sem gekk greiðlega að sögn Þorbjörns. Fólkið var flutt á sjúkrahús í öryggisskyni, en virtist ekki hafa orðið meint af. 

Þorbjörn segir lögreglumennina hafa brugðist hratt við, þeir vöktu fólkið og komu því út. Þá náðu þeir að halda eldinum í skefjum með slökkvitækjum þar til slökkvilið kom á staðinn og réði niðurlögum eldsins. 

Fjöldi fólks er í bænum í tengslum við rokkhátíðina Aldrei fór ég suður, sem hefst formlega í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert