Humarpizza er ekkert pizza!

Remo Nafra heitir ítalski „pizzaiolo“-inn sem Þráinn Lárusson hefur fengið …
Remo Nafra heitir ítalski „pizzaiolo“-inn sem Þráinn Lárusson hefur fengið til liðs við sig á veitingastaðnum Glóð á Egilsstöðum. Ljósmynd/Aðsend

Það er aðeins á einum stað á landinu sem fæst alvöru ítölsk pizza, án gæsalappa. Það er á veitingastaðnum Glóð á Hóteli Valaskjálf á Egilsstöðum, vill eigandi staðarins meina. Hann er búinn að koma fyrir þriggja tonna eldofni og flytja í leiðinni inn sérmenntaðan ítalskan „pizzaiolo“ að nafni Remo Nafra, sem sagt pizzubakara. Sá er nú í óðaönn við að baka pizzur ofan í gesti, því hann treystir öðrum ekki í verkið.

„Hann er voðalega sérvitur,“ segir Þráinn Lárusson, eigandi veitingastaðarins, glaður í bragði. Nafra umræddur er skólagenginn pizzubakari, sem er starfsgrein í Ítalíu. Þráinn segist hafa einsett sér að gera fullkomlega ekta ítalskar pizzur og gefa nákvæmlega engan afslátt af því. Hann vissi að það gæti hann ekki gert sjálfur og ekki með íslenskum hráefnum. Því eru aðeins ítölsk hráefni í pizzunum. Ferskur mozzarella, Buffalo mozzarella, salami, þurrkaðar pylsur, allt er flutt inn frá Ítalíu. Og ekki aðeins áleggið: bakarinn nefndi tiltekið hveiti sem hann vildi nota og tiltekið ger og eftir nokkra fyrirhöfn tókst Þránni að flytja það inn. Bakarinn er svo 50 klukkustundir að búa til deigið. Niðurstaðan af öllu þessu segir Þráinn að sé sú, að pizzan er nákvæmlega eins og ef maður færi á góðan pizzastað í Róm.

Svonefnd „Pizza Bianca“ kvað vera vinsæl í Róm en á …
Svonefnd „Pizza Bianca“ kvað vera vinsæl í Róm en á henni er enginn tómatur. Þessi, sem heitir „Capo“, er með heimalagaðri parmapylsu, kartöflum, hvítlauksolíu og rósmarín. Ljósmynd/Aðsend

Verða pizzurnar þá ekki einfaldlega þeim mun dýrari?

„Nei,“ segir Þráinn, „þú verður að gera þér grein fyrir því að þó að hráefnið sé miklu dýrara, gengur ítalska pizzan ekki út á það að moka á hana haug af áleggjum eins og gjarnan er gert á öðrum pizzum.“ Eina pizzan á staðnum sem er dýrari en 3000 krónur er þannig humarpizzan. Þráinn segir að nokkrar fortölur hafi þurft til að fá bakarann til að gera humarpizzu. „Það er ekkert pizza!“ svaraði bakarinn hneykslaður þegar hugmyndina bar upp. En lét segjast fyrir rest. 

Sem stendur er bakarinn einn í þessu og Þráinn segir að ekki sé víst að hann vilji hafa það að ólærðir komi að bakstrinum. Þeir þyrftu þá að hljóta mikla þjálfun. Ofninn sem er notaður var handsmíðaður í Róm, stein fyrir stein, og vegur 3,2 tonn. Þráinn segir ekki hafa verið lítið mál að koma honum fyrir, lyftur Eimskipa hafi ekki loftað honum í fyrstu. Heljarinnar krani var notaður í verkið, eftir að hann kom til landsins með Norrænu.

Góður rekstur árið um kring á Egilsstöðum

Samkvæmt ítalskri hefð er áleggið sett ofan á pizzuna að …
Samkvæmt ítalskri hefð er áleggið sett ofan á pizzuna að bakstri loknum þegar pizzur eins Parma eru annars vegar. Rúkólað og parmaskinkan koma síðast. Ljósmynd/Aðsend

Viðtökurnar segir Þráinn að hafi verið framar öllum vonum fyrstu dagana en þeir hófu að selja þessar pizzur 12. apríl.

„Ég vissi að þetta gæti brugðið til beggja vona,“ segir Þráinn. „Þeir sem eru vanir pizzum á Íslandi, Domino’s og svona, eru ekkert vísir til að vilja svona pizzur.“ Þráinn segist hafa vitað að til þess að hafa sérstöðu á markaðnum yrði hann að hafa ekta útlendan pizzugerðarmann, svo fólk myndi trúa að þetta væri nákvæmlega eins og þetta ætti að vera. Hann hefur sjálfur reynslu af svona matargerð og segist í sjálfu sér hafa getað gert þetta bara sjálfur en að þá hefðu óhjákvæmilega laumast inn íslensk áhrif í pizzuna, sem hann vildi ekki. 

„Þegar þú ert úti á landi verðurðu að skera þig úr,“ segir Þráinn. Veitingastaðir úti á landi þurfi ekki að miða sig við veitingastaði í Reykjavík, heldur eigi þeir frekar að skapa sér eigin sérstöðu. Reksturinn á landsbyggðinni er ólíkur því sem er að heilsa í borginni, enda vetrarmánuðirnir öllu rólegri.

Þráinn segir þó að ferðamönnum sé að fjölga úti á landi á veturna. Ekki séu mörg ár síðan veitingarekstur yfir árið var talinn útilokaður á Egilsstöðum en nú rekur Þráinn þar þrjá veitingastaði, að Glóð meðtalinni. Glóð hefur verið rekin á Hótel Valaskjálf síðan 2015.

Eldofninn er handgerður í Róm, stein fyrir stein, að sögn …
Eldofninn er handgerður í Róm, stein fyrir stein, að sögn Þráins. Hann vegur 3,2 tonn og það kostaði ekki litla fyrirhöfn að koma honum fyrir. Ljósmynd/Aðsend
Veitingahúsið býður ekki aðeins upp á pizzur heldur ýmsa miðjarðarhafsskotna …
Veitingahúsið býður ekki aðeins upp á pizzur heldur ýmsa miðjarðarhafsskotna rétti og sömuleiðis íslensk afbrigði af þeim. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert