Ástþór að baki nýrri flugrekstrarhugmynd

Athafnamaðurinn Ástþór Magnússon stendur á bak við FlyIcelandic-hugmyndina, sem nú …
Athafnamaðurinn Ástþór Magnússon stendur á bak við FlyIcelandic-hugmyndina, sem nú er kynnt á vefnum. Hann hefur tekið sér margt fyrir hendur á sínum viðskiptaferli og einnig boðið sig nokkrum sinn fram til þess að verða forseti Íslands. mbl.is/Golli

Athafnamaðurinn Ástþór Magnússon, ásamt fleirum, stendur á bak við viðskiptahugmynd um stofnun nýs íslensks flugfélags, sem kynnt er á vefsíðunni flyicelandic.is. Á vefnum kemur fram að hugmyndin með verkefninu sé að „koma saman fólki og fyrirtækjum sem vilja gerast þátttakendur í nýju flugfélagi sem farþegar, fjárfestar, og samstarfsaðilar.“

Á vefsíðunni kemur einnig fram að þeir sem standi að verkefninu hafi „áratuga reynslu í flugrekstri og aðgang að Airbus flugvélaflota sem leggur áherslu á plastlaust flug,“ en aðgangurinn að flugvélaflotanum mun samkvæmt talsmanni verkefnisins vera í gegn um Jet Banus, fyrirtækis í flugtengdum rekstri sem Ástþór Magnússon kemur að ásamt portúgölskum félögum sínum.

Fyrrverandi starfsmönnum WOW air er sérstaklega boðið að skrá áhuga sinn á því að taka þátt í verkefninu „á öruggum starfsgrundvelli,“ að því er segir á vefsíðunni.

Stefna ekki að því að reka flugfélag sjálfir

Jóel Kristinsson, talsmaður flyIcelandic verkefnisins, segir í samtali við mbl.is að þeir sem standi að hugmyndinni stefni ekki sjálfir að því að reka flugfélag, heldur séu þeir að stefna að því að setja upp viðskiptagrunn fyrir nýtt félag. Hann segir þetta allt saman á byrjunarstigi.

Á vefnum er talað um að þeir sem skrái sig til þátttöku í verkefninu öðlist rétt til þess að kaupa „EcoMiles sem eru flugmílur á heildsöluverði“. Blaðamaður var litlu nær eftir að hafa lesið sér til um „EcoMiles“-hugmyndina á vefsíðunni og spurði Jóel því hvernig kerfið virkaði.

EcoMiles-kerfið svokallaða er fyrirferðamikið í kynningunni á FlyIcelandic-hugmyndinni, en hvernig …
EcoMiles-kerfið svokallaða er fyrirferðamikið í kynningunni á FlyIcelandic-hugmyndinni, en hvernig kerfið virkar virðist ekki alveg á tæru. Talsmaður verkefnisins tekur fram að það sé á byrjunarstigi. Skjáskot af vefnum flyicelandic.is

Jóel sagði EcoMiles-kerfið byggja á „blockchain-kerfinu“, sem er rafmyntarkerfi, og sagði það virka þannig að fólk gæti „tekið þátt í að selja og fljúga og annað“.

„Þetta er svona til að virkja fólk til að taka þátt í þessu, en þetta er auðvitað ekkert komið af stað, þetta er bara svona á byrjunarstigi,“ segir Jóel.

Aðspurður segir Jóel að verkefnið sé ekki á nokkurn hátt tengt vefsíðunni hluthafi.com né heldur hugmyndum sem Hreiðar Hermannsson athafnamaður hefur kynnt í vikunni, um stofnun nýs íslensks flugfélags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert