Stakk gat á hjólbarða bifreiða

mbl.is/Eggert

Maður var handtekinn í Reykjavík í morgun grunaður um að hafa stungið gat á hjólbarða á bifreiðum, en tilkynnt var um manninn á sjöunda tímanum í morgun. Hann var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá handtók lögreglan ökumann í Árbæ á tíunda tímanum, en hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt lögreglu tók maðurinn afskiptum lögreglu illa og veitti mótspyrnu við handtöku. Hann var fluttur til sýnatöku og var látinn laus nokkru seinna þegar ástand hans var orðið gott.

Annar ökumaður var einnig handtekinn í Árbæ á ellefta tímanum, en hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var einnig látinn laus að lokinni sýnatöku.

Samtals voru 28 mál bókuð frá klukkan fimm í morgun til klukkan ellefu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert