Engin raunhæf úrræði í boði

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs og Tryggva.
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs og Tryggva. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög, mjög merkilegur dómur hjá Hæstarétti. Hæstiréttur lýsir þeirri afstöðu að það séu engar lagaheimildir til þess að taka upp dóma á grundvelli þess að Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hafi komist að niðurstöðu um að fyrri dómar þeirra séu rangir,“ segir Gestur Jónsson, lögmaður þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar.

Í morgun kvað Hæstiréttur Íslands upp þann dóm að mál þeirra yrði ekki endurupptekið og það segir Gestur hafa komið sér „mjög á óvart“ þar sem hann telji að fyrir liggi fordæmi frá Hæstarétti, Vegasmálið frá 2012.

Dómur Hæstaréttar hefur væntanlega fordæmisgildi fyrir aðra þá sem leitað hafa til MDE sökum þess að hafa verið refsað tvívegis af íslenska ríkinu fyrir sömu brotin, en nýjasta dæmið um slíkt er mál Bjarna Ármannssonar kaupsýslumanns, sem lagði íslenska ríkið fyrir MDE í síðasta mánuði.

„En þetta er niðurstaða Hæstaréttar og þá horfir maður til þess að samkvæmt mannréttindasáttmálanum, sem er ekki bara einhver sáttmáli úti í heimi heldur eru lög sem gilda á Íslandi, […] er sú skylda lögð á aðildarríki mannréttindasáttmálans að tryggja þegnum sínum raunhæf úrræði til þess að ná rétti sínum, samkvæmt dómum MDE.

Að fenginni þessari niðurstöðu Hæstaréttar liggur fyrir að íslenska ríkið hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni til þess að ná rétti sínum samkvæmt dómum MDE,“ segir Gestur og vísar til 13. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

Þar segir: „Sérhver sá sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans skert, sem lýst er í samningi þessum, skal eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi, og gildir einu þótt brotið hafi framið opinberir embættismenn.“

Gestur Jónsson (t.v.) og Jón Ásgeir Jóhannesson (f.m.) hafa varið …
Gestur Jónsson (t.v.) og Jón Ásgeir Jóhannesson (f.m.) hafa varið dágóðum tíma saman í dómsal undanfarin ár. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Í niðurlagi dóms Hæstaréttar, sem kveðinn var upp í morgun, kemur fram að með niðurstöðunni sé „ekki tekin afstaða til þess hvort dómfelldu kunni að eiga önnur raunhæf úrræði til að leita réttar síns á grundvelli 13. gr. mannréttindasáttmálans“.

Þetta telur Gestur algjörlega útilokað.

„Ég veit ekki til þess að það sé nein önnur leið til að fella dóma Hæstaréttar úr gildi í sakamáli nema það sé gert af Hæstarétti sjálfum,“ segir hann og bætir við að hann skilji ekki hvað Hæstiréttur sé að segja.

„Það er í mínum huga fullkomlega útilokað að það séu nokkur önnur úrræði við núverandi aðstæður.“

Saksóknari breytti afstöðu sinni

Gestur segir að sé merkilegt að þegar að málið var rekið fyrir endurupptökunefndinni, sem í fyrra tók ákvörðun um að taka ætti málið upp fyrir Hæstarétti, hafi Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari tvívegis veitt því jákvæða umsögn að málið yrði tekið upp á ný.

„Í báðum tilvikum mælti hann eindregið með endurupptöku og að það yrði fallist á þessa beiðni. Síðan kom niðurstaða frá nefndinni sem var í samræmi við það sem við óskuðum eftir og það sem ríkissaksóknari hafði mælt með, en þegar málið var flutt fyrir Hæstarétti þá breytti ríkissaksóknari um afstöðu og hélt því fram, sem að er núna niðurstaða Hæstaréttar, að það væri ekki lagagrundvöllur fyrir þessari endurupptöku.“

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Eggert

Gestur segir að saksóknari hafi skýrt þessa kúvendingu í afstöðu sinni með þeim hætti að við nánari skoðun hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að það vantaði lagaheimild fyrir endurupptökunni.

Svíar hafi ekki þurft neinar lagabreytingar til

Í dómi Hæstaréttar er fjallað um að í Noregi hafi verið sett sérstakt lagaákvæði sem heimili Hæstarétti Noregs að endurupptaka mál á grundvelli dóma MDE, en það vekur athygli Gests að ekki hafi verið fjallað um að Hæstiréttur Svíþjóðar hafi árum saman tekið upp „öll mál af þessu tagi án þess að það væri nokkrum lögum breytt þar“.

„Ég veit ekki til þess að það hafi verið neinar aðrar aðstæður uppi í Svíþjóð en á Íslandi. Þar löguðu menn þessa stöðu sem uppi var nánast í beinu framhaldi af dómi MDE sem gekk árið 2010 eða 2009,“ segir Gestur.

Spurður út í framhaldið fyrir skjólstæðinga sína segir Gestur að mögulegt haldreipi gæti verið frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um stofnun endurupptökudómstóls, sem mun koma í stað endurupptökunefndar verði frumvarpið að lögum.

„Samkvæmt frumvarpinu er sett inn sérstök heimild til þess að taka upp mál á grundvelli þess að niðurstöður MDE hafi verið aðrar um túlkun á réttarreglunum heldur en þær sem eru á Íslandi. Verði þessi lög samþykkt opnast til þess heimild að fá þennan dóm endurupptekinn,“ segir Gestur.

En hann segir ferlið nú þegar hafa verið afar langt fyrir skjólstæðinga sína og að ekki megi gleyma því að þetta mál sem Hæstiréttur fjallaði um í morgun eigi sér uppruna í atvikum sem áttu sér stað árið 2002.

„Það eru þegar orðin 17 ár síðan þetta byrjaði og þetta er auðvitað alveg rosaleg niðurstaða að fá það í andlitið að það sé ekki heimild til að leiðrétta það sem er vitað að var rangt,“ segir Gestur og bætir því að Íslendingar séu „tossar í því að standa við þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert