Umsóknum um kennaranám fjölgar um 30%

Heildarfjöldi umsækjenda um M.Ed.-nám til kennsluréttinda í leik- og grunnskólum …
Heildarfjöldi umsækjenda um M.Ed.-nám til kennsluréttinda í leik- og grunnskólum í ár er 264 nemendur, en þeir hafa verið 186 að meðaltali sl. fimm ár. mbl.is/​Hari

Umsóknum um framhaldsnám til kennsluréttinda í leik- og grunnskólakennaranámi við Háskóla Íslands hefur fjölgað um 30% miðað við meðaltal síðustu fimm ára samkvæmt upplýsingum frá menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu að heildarfjöldi umsækjenda um M.Ed.-nám til kennsluréttinda í leik- og grunnskólum í ár sé 264 nemendur, en þeir hafa verið 186 að meðaltali sl. fimm ár.

„Þetta eru virkilega ánægjulegar fréttir og að mínu mati góð vísbending um að við séum á réttri leið. Kennarastarfið er enda spennandi kostur sem býður upp á fjölbreytta starfsmöguleika og mikið starfsöryggi. Það er eftirtektarverð gróska í íslenskum skólum þessi misserin og ég finn sjálf fyrir miklum meðbyr með menntamálum og umræðunni um íslenskt skólastarf til framtíðar,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í tilkynningunni.

Fyrr í vor kynnti ráðherra aðgerðir sem ætlað er að fjölga kennurum, en í þeim felst meðal annars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunnskólakennaranemum launað starfsnám á lokaári sínu. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi sótt um námsstyrk sem nemur alls 800.000 kr. til að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi. 

Enn fremur veitir mennta- og menningarmálaráðuneytið nú styrki til að fjölga kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn sem m.a. taka á móti nýjum kennurum sem koma til starfa í skólum. Hefur umsóknum um slíkt nám fjölgað um 100% milli ára samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert