Umferðarslys og líkamsárás

Fjarlægja þurfti bifreið af Vesturlandsvegi við Korputorg í Reykjavík með kranabifreið um klukkan þrjú í dag vegna umferðarslyss. Engin slys urðu hins vegar á fólki samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var einnig um slys í Hafnarfirði rétt fyrir klukkan fimm en þar hafði einstaklingur fengið heitan vökva í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut fyrsta stigs bruna. Skömmu síðar varð umferðarslys á Vesturlandsvegi við Mosfellsbæ þar sem bifreið hafði verið ekið aftan á aðra bifreið. Önnur bifreiðin var óökufær og minniháttar meiðsli urðu á fólki.

Ennfremur barst lögreglunni tilkynning um klukkan sjö um að ekið hafi verið á reiðhjólamann í Elliðaárdal í reykjavík sem varð fyrir minniháttar meiðslum. Um sama leyti var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi í Mosfellsbæ. Sá sem fyrir árásinni varð hlaut talsverða áverka í andlit og var árásarmaðurinn handtekinn og vistaður í fangageymslum.

Klukkan hálf átta var tilkynnt um eld við Kjarvalsstaði í Reykjavík. Eldurinn reyndist vera í útihitara og urðu ekki skemmdir á öðru en honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert