Flugkennslu aflýst vegna óánægju kennara

Flugum var aflýst hjá Flugakademíunni vegna óánægju sumra verktaka með …
Flugum var aflýst hjá Flugakademíunni vegna óánægju sumra verktaka með þá kröfu að þeir skyldu gangast undir kjarasamning. Keilir/Ásbrú

Á fimmtudagskvöld sendi Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis, flugkennurum póst þess efnis að verktökum yrði gert að gangast undir kjarasamning Flugakademíunnar við FÍA ef þeir vildu vinna þar áfram.

Þetta olli nokkrum usla meðal verktakanna, sem sumir ákváðu að fara ekki í flug dagana eftir, föstudag og laugardag. Flugferðum var þá aflýst, samkvæmt heimildum mbl.is.

Óánægjan stafaði af skömmum fyrirvara um breytingarnar og því að í sumum tilvikum hafði þetta í för með sér launalækkun fyrir þá sem höfðu verið að vinna sem verktakar. Um það bil fimmtán flugkennarar starfa hjá Flugakademíunni og um 6-7 þeirra eru verktakar. Óljóst er hversu mikil launalækkunin kann að verða en samkvæmt heimildum mbl.is virtist launalækkunin virtist í sumum tilvikum ætla að verða umtalsverð.

Fundur hefur verið boðaður á þriðjudaginn þar sem breytingarnar verða ræddar á milli flugkennara og stjórnar og reynt verður að ná sátt um málið. Skólastjóri Flugakademíunnar segir að breytingarnar séu liður í samruna tveggja flugskóla, samræmingaraðgerð.

Verið að koma mönnum inn á sameiginlegan kjarasamning

Í samtali við mbl.is segir Snorri Páll Snorrason, skólastjóri Flugakademíunnar, að um sé að ræða skipulagsbreytingar vegna samruna Flugakademíunnar og Flugskóla Íslands. „Það er verið að gera skipulagsbreytingar í sambandi við samrunann á báðum skólunum og það er verið að vinna að því að koma öllum inn á sameiginlegan kjarasamning,“ segir Snorri Páll.

„Allir sem eru að kenna hjá okkur í Keili hafa kost á því að vera kjarasamningsbundnir, eins og við erum með samning um við FÍA,“ segir hann.

Snorri Páll kveðst ekki kannast við að flugkennarar hafi lagt niður störf af óánægju við þessa ráðstöfun. „Það er ekkert sem ég hef heyrt af. Ég held að allir kjarasamningsbundnir kennarar séu bara enn þá við störf og með samning við skólann,“ segir hann en tók þannig ekki afstöðu til hins, hvort verktakarnir hefðu lagt niður störf.

Segir að koma eigi eftir í ljós hvort þetta þýði launalækkun

Samkvæmt heimildum mbl.is var verktökum boðið að gangast undir kjarasamninginn, ellegar myndu þeir ekki vinna áfram hjá félaginu. Um það hvort launalækkun felist í þessum breytingum fyrir þá sem voru verktakar segist Snorri Páll ekki vera viss. Það eigi eftir að koma í ljós.

Um 15 flugkennarar starfa hjá Keili og 6-7 þeirra eru …
Um 15 flugkennarar starfa hjá Keili og 6-7 þeirra eru verktakar, samkvæmt heimildum mbl.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum verið með einhverja verktaka en þeim stendur nú öllum til boða að koma inn á kjarasamningsbundinn samning sem við erum með við FÍA,“ segir Snorri Páll og ítrekar að aðgerðin hafi þann tilgang að samræma laun starfsmanna, sem hafi verið mismunandi fyrir, þar sem sumir höfðu verið að vinna fyrir Flugskóla Íslands en aðrir fyrir Flugakademíuna.

Fundur er haldinn á þriðjudaginn um málið og verður farið yfir það þar hvernig þessum breytingum verður háttað. Snorri Páll segist ekki vita betur en að þangað til þá verði allir kjarasamningsbundnir kennarar við störf.

Yfirumsjón með þessum málum hefur Rúnar Árnason, for­stöðumaður Flugaka­demíu Keil­is. Hann hefur ekki gefið kost á viðtali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert