Sykurskattur sé forsjárhyggja

Til stendur að hækka skattlagningu á sykurríkum neysluvörum.
Til stendur að hækka skattlagningu á sykurríkum neysluvörum. mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda gagnrýnir áform um nýjan sykurskatt og fleiri breytingar á skattlagningu matvæla og segir þær munu flækja skattkerfið á ný með tilheyrandi óhagræði og umstangi fyrir fyrirtæki og hættu á undanskotum frá skatti.

Þetta kemur fram í frétt á vef Félags atvinnurekenda, en þar bendir Ólafur á að undanfarin ár hafi náðst verulegur árangur í einföldun kerfis neysluskatta. „Að mati FA ætti að stefna að einu, lágu virðisaukaskattsþrepi fyrir allar vörur og þjónustu,“ segir í fréttinni.

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að skipa starfshóp sem falið verður að innleiða aðgerðaáætlun landlæknis til þess að draga úr sykurneyslu landsmanna, en aðgerðaáætlunin felst m.a. í því að hækka skattlagningu á sykurríkum mat en lækka álögur á ávexti og grænmeti.

Af hverju eru ekki lágir skattar á hlaupaskóm?

Ólafur segir ýmislegt jákvætt í aðgerðaáætluninni en að sykurskattur geti talist forsjárhyggja. „Það er bara svo óskaplega erfitt þegar stjórnvöld eru farin að ákveða fyrir okkur hvað er hollt og hvað er óhollt og breyta verðinu á hlutum til að stýra neyslunni. Hvar endar það? Ef við ætlum að leggja á skatta eftir þessu, af hverju eru þá ekki háir skattar á sjónvörpum? Af hverju eru ekki lágir skattar á hlaupaskóm og reiðhjólum, og svo framvegis? Þetta er röksemdafærsla sem endar bara strax úti í skurði.“

Þá bendir Ólafur á að samkvæmt rannsókn á áhrifum sykurskattsins sem lagður var á árin 2014 til 2015 hafi hann engin áhrif haft nema auknar tekjur í ríkissjóð, auk þess sem hann segir reynslu af sykurskatti í öðrum ríkjum misvísandi.

Á gosdrykkjamarkaði hafi þróunin verið sú undanfarin ár að hlutfall neyslu sykrarða drykkja hafi minnkað hratt á sama tíma og hlutfall vatnsdrykkja hafi hækkað ört vegna breyttra neysluhátta og breytinga á vöruframboði til að mæta kröfum neytenda, alveg án afskipta ríkisins.

„Nú er hægt að velta því fyrir sér, ef sykurskatturinn hefði verið lagður á lengur – myndu stjórnvöld þakka sykurskattinum þessa þróun? Mér finnst ekki ólíklegt að einhverjir hjá Landlæknisembættinu myndu berja sér á brjóst og segja: Hér var sykurskattur, þetta varð þróunin, en staðreyndin er sú að þróunin varð án sykurskatts. Við höllumst nú að því að það eigi bara að treysta fólki til að taka ákvarðanir um sína neyslu sjálft,“ segir Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert