Ómetanlegur tónlistararfur brann

Louis Armstrong á tónleikum í Háskólabíói árið 1965. Hann var …
Louis Armstrong á tónleikum í Háskólabíói árið 1965. Hann var einn af risunum í tónlistinni um miðja síðustu öld. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Fyrir ellefu árum kom upp eldur á lóð Universal-risans í Hollywood. Á lóðinni voru kvikmyndir teknar upp, sett smíðuð og rifin og ferðamenn gengu um og virtu fyrir sér draumasmiðjuna. Í stóru vöruhúsi á svæðinu voru geymdar frumupptökur með mörgum helstu tónlistarmönnum 20. aldarinnar. Sumar munu aldrei heyrast aftur. 

Upptökurnar voru með tónlistarmönnum á borð við Elton John, Billie Holiday, Ellu Fitzgerald, Nirvana, Guns N' Roses og Louis Armstrong töpuðust í eldinum en í heild sinni er áætlað að um 500 þúsund lög og upptökur hafi glatast í eldinum á um 170 þúsund segulbandsspólum. Magnið var gríðarlegt þar sem Universal hefur í gegnum tíðina keypt minni útgáfur og tónlistarsöfn þeirra. Fyrirtækið er í eigu frönsku fjölmiðlasamsteypunnar Vivendi og er nú stærsta tónlistarútgáfa heims eftir að hafa náð vopnum sínum með risi streymisveita.

Það hefur tekið langan tíma að komast að því hversu mikið tjónið var en New York Times birti á dögunum ítarlega umfjöllun um eyðilegginguna og þar er bruninn kallaður: mestu hamfarir sem riðið hafa yfir tónlistargeirann.“ Sér í lagi í ljósi þess hve mikið magn af upptökum frá fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum fórust en bent hefur verið á að upptökutækni hafi verið mun þróaðri á þessum tíma en t.a.m. afspilunartækni og því væri með nútímatækni hægt að vinna vel úr þeim.

Umslag plötunnar Nevermind með Nirvana. Einni mikilvægustu rokkplötu allra tíma. …
Umslag plötunnar Nevermind með Nirvana. Einni mikilvægustu rokkplötu allra tíma. Masterar með upptökum sveitarinnar glötuðust í eldinum.

Ári eftir brunann lét Universal gera úttekt á skaðanum sem bruninn olli. Umfjöllun NYT byggir m.a. á þessari skýrslu sem var óopinber. Þar er gert ráð fyrir því að upptökur með 500.000 lögum hafi orðið eldinum að bráð. Talan er ótrúleg. Hálf milljón laga! Í kjölfar brunans gerðu forsvarsmenn Universal allt sem þeir gátu til að leyna umfangi tjónsins og ítrekað var haft eftir þeim að lítill sem enginn skaði hefði orðið og þeir týndu til örfáa óþekkta listamenn sem áttu að hafa átt upptökur í geymslunum. Erfitt er að slá því föstu af hverju viðbrögðin voru slík en samningagerð í tónlistargeiranum getur verið flókin þegar eignarhald á hugverkum er annars vegar. Því er mögulegt að þeir listamenn eða fjölskyldur listamanna sem léku inn á upptökur sem skemmdust í brunanum gætu lögsótt fyrirtækið vegna skaðans og stjórnendur Universal hafi séð fram á gríðarlegt tap á tíma sem var tónlistarútgáfum mjög erfiður fyrir.

Ella Fitzgerald í heimsókn á Íslandi árið 1966. Upptökur með …
Ella Fitzgerald í heimsókn á Íslandi árið 1966. Upptökur með henni glötuðust í brunanum. Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon

Upptökur í sinni hreinustu mynd

Upptökurnar sem um ræðir eru svokallaðar master-upptökur. Segulbandsupptökur sem gerðar voru í hljóðverum og svo afritaðar til að færa yfir á vínyl, kassettur, geisladiska og aðrar tegundar afspilunar. Í mörgum tilfellum var um að ræða segulbönd með einangruðum rásum með stökum hljóðfærum eða söng. Master-upptökur eru frumeintök og einhver gæði glatast alltaf við yfirfærslu þeirra. Þær komast eins nálægt því að vera inni í herberginu með tónlistarmönnunum og mögulegt er.

Hér fyrir neðan má heyra bassaleik Paul McCartney á einangraðri rás í laginu Something með Bítlunum. Þetta er ekki upptaka sem glataðist í brunanum en með henni má glögglega heyra hversu mikilvægt er að varðveita fjölrása upptökur.  

Í sumum tilfellum var um að ræða óútgefin lög eða aðrar útgáfur af lögum en þær sem fengu útgáfu. Universal er einn risanna þriggja í tónlistargeiranum en hafði í gegnum tíðina keypt upp minni útgáfur á borð við Chess frá Chicago sem kom fólki á borð við Muddy Waters, Chuck Berry og Ettu James á kortið. Risum í bandarískri tónlistarsögu og þar með heimsins. Frumupptökur með þeim eru nú glataðar að eilífu.

Jónatan Garðarsson, fjölmiðlamaður, segir eyðilegginguna hjá Universal vera hreinustu hneisu. „Universal er búið að sanka að sér plötuútgáfum út um allt. Þeir eiga Motown, EMI og Verve [gömul djass- og blúsútgáfa] ásamt heilmiklu af öðru,“ segir Jónatan og bendir á að í mörgum tilfellum hafi fjölrása upptökur ekki verið til frá því á fimmta og sjötta áratugnum en margt af því sem hafi glatast frá þeim tíma hafi verið aðrar upptökur en þær sem nýttar voru í sjálfum útgáfunum, það sem kallað er alternative take. Þetta sé sérstaklega þýðingarmikið í djassinum og þar hafi glatast mikil verðmæti. „Þetta hefur væntanlega allt saman farið og það er rosalegur skaði, þó mögulega hafi verið búið að afrita eitthvað,“ segir Jónatan.   

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem master-upptökur glatast, mikið af efni með sjálfum Elvis Presley var fargað á áttunda áratugnum,  og stóru útgáfurnar hafa verið gagnrýndar harðlega í gegnum tíðina fyrir að sýna masterum ekki nægjanlega virðingu. Eins furðulegt og það er þegar litið er til þess hversu mikið fyrirtækin hafa haft upp úr endurútgáfum á slíkum upptökum með smávægilegum breytingum eða endurbótum.

Íslenskur tónlistararfur verði aðgengilegur

Íslenskur tónlistararfur sem geymdur er á masterspólum er að mestu í eigu plötufyrirtækisins Öldu. Bæði er um að ræða fjölrása segulbönd með hljóðfærum á einangruðum rásum en einnig stereo og mono segulbönd með tveimur rásum þar sem lögin eru í sinni fullkláruðu mynd.

Stór hluti af tónlistararfi Íslendinga er geymdur á 30 brettum …
Stór hluti af tónlistararfi Íslendinga er geymdur á 30 brettum og bíður þess að vera flokkaður. Ljósmynd/Aðsend

Sölvi Blöndal er eigandi Öldu ásamt Ólafi Arnalds og þeir gengu frá kaupum á safninu af Senu, áður Skífunni, fyrir þremur árum síðan. Hann segir hundruð ef ekki þúsundir laga vera í því safninu sem sé geymt í kössum á 30 brettum. Hann skýtur á að um 80% eða meira af útgefinni íslenskri tónlist sé í safninu.

„Þegar þú ert eigandi að svona safni þá er það náttúrulega mikil ábyrgð að varðveislan sé með eðlilegum hætti. Við höfum nýhafið samstarf við Landsbókasafnið um varðveislu á safninu og við gerum okkur vonir um að safnið okkar verði uppistaðan í tónlistarsafni í framtíðinni sem fræðimenn og almenningur geta haft aðgang að.“ Samstarfið er skammt á veg komið þar sem verkefnið er umfangsmikið en allir eru sammála um að menningarverðmætin séu mikil.

Að stórum hluta hefur efnið verið afritað stafrænt en það er mikil vinna þar sem rétt ræki þarf til að spila segulböndin og stundum þarf að hreinsa segulböndin eða lagfæra þau áður en hægt er að spila þau fyrir afritun. Þá er ýmislegt geymt með öðrum hætti t.a.m. á svokölluðum DAT-spólum. „Það er bara risastórt verkefni að greina þetta og það er það sem við vonumst til að gerist þegar Landsbókasafnið kemur að málinu,“ segir Sölvi sem leggur áherslu á hversu merkileg tónlist sé í safninu og nefnir upptökur með Stefáni Íslandi, Hauki Morthens og Ellý Vilhjálms. Masterar frá hljómsveitum eins og Trúbroti, Hljómum, Sálinni hans Jóns míns og Ný Danskri. Gangi vonir Öldu manna eftir gæti hver sem er skoðað og hlustað á einstakar rásir af upptökum með þessum listamönnum og hljómsveitum.

Sölvi Blöndal , annar eigenda Öldu, vonast til að gera …
Sölvi Blöndal , annar eigenda Öldu, vonast til að gera eins mikið af tónlistararfi þjóðarinnar aðgengilegan almenningi og hægt er. mbl.is/Golli

Heilt yfir telja þeir sem hafa starfað í tónlistargeiranum í gegnum tíðina að varðveisla íslenskra hljómplötuútgefenda verið góð og engin áföll sem líkja mætti við brunann hjá Universal hafi komið upp hérlendis. Helst er talað um að fjölrása master-upptökur sem gerðar voru undir merkjum SG-platna á sínum tíma hafi glatast þar sem tekið hafi verið yfir þær til að draga úr kostnaði. Jónatan sem starfaði um árabil í tónlistargeiranum m.a. hjá Steinum segir að eitthvað af íslenskum masterum hafi líka verið settir á video-spólur til geymslu og þar gætu hafa orðið skemmdir á. Þá sé hætta á að masterar sem hafi í sífellt meira mæli verið geymdir á stafrænu formi upp úr aldamótum hafi skemmst eða týnst.  

Heimild: 

New York Times 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert