„Tek ekki þátt í einhverju gerviferli“

Vigdís segir að um sé að ræða „gervirannsóknarrétt“.
Vigdís segir að um sé að ræða „gervirannsóknarrétt“. Haraldur Jónasson/Hari

„Ég þarf engar sættir við þessa konu því ég vinn ekki með henni og hef ekki samskipti við hana dagsdaglega,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, um skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra, sem lagði fram 100 blaðsíðna kvörtun yfir hegðun Vigdísar til áreitni- og eineltisteymis borgarinnar.

Þessi ummæli lét Vigdís falla í Kastljósi, en hún stendur við það sem hún hefur áður sagt: að hún ætli ekki að taka þátt í rannsókn teymisins á málinu.

Vigdís segir að um sé að ræða „gervirannsóknarrétt“ og aðspurð hvað sé því til fyrirstöðu að hún svari spurningum teymisins varðandi málið segist hún glöð myndu „tala við þetta fólk fyrir dómstólum“. „Ég tek ekki þátt í einhverju gerviferli sem Reykjavík setur af stað.“

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og nýkjörinn forseti borgarstjórnar.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og nýkjörinn forseti borgarstjórnar. mbl.is/Eggert

Vildi heldur ræða mikilvægari mál í fjölmiðlum

Pawel Bartoszek, nýkjörinn forseti borgarstjórnar, var ásamt Vigdísi gestur Kastljóss í kvöld og sagðist harma það að þurfa að mæta í sjónvarp til að ræða persónulegan ágreining innan borgarinnar í stað mikilvægari mála eins og borgarlínu og lækkun fasteignaskatta. Hann sagði þó eðlilegt að mál sem þessi færu í ferli og að borgin hafi í einu og öllu farið að ráðleggingum siðanefndar Sambands sveitarfélaga.

Ferlið ætti fyrst og fremst að vera sáttaferli og hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að Vigdís settist niður með teyminu. Vigdís svaraði því hins vegar svo að ætti skrifstofustjórinn eitthvað vantalað við hana gæti hún leitað réttar síns fyrir dómstólum.

Sjálf væri hún að kanna réttarstöðu sína vegna málsins, enda væri verið að grafa undan trúverðugleika hennar sem stjórnmálamanni. Velti Vigdís fyrir sér hvort það væri vegna þess hve dugleg hún væri að fletta ofan af spillingarmálum innan borgarinnar.

Pawel lýsti áhyggjum sínum yfir því að lögfræðimenntuð manneskja notaði dómstóla með þessum hætti. „Erum við ekki á vondum stað þegar ‚see you in court‘ er fyrsta svarið?“ spurði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert