Stekkur ekki úr sófanum á Laugaveginn

Lilja Ágústa Guðmundsdóttir alsæl eftir að hún hafði hlaupið Laugaveginn …
Lilja Ágústa Guðmundsdóttir alsæl eftir að hún hafði hlaupið Laugaveginn um síðustu helgi. Ljósmynd/Aðsend

„Maður stendur ekki bara upp úr sófanum og segist ætla að hlaupa Laugaveginn,“ segir Lilja Ágústa Guðmundsdóttir. Hún varð um síðustu helgi fyrsta konan í aldursflokknum 70 ára og eldri til að klára Laugavegshlaupið en Lilja er 71 árs.

Þetta var í fjórða sinn sem Lilja tekur þátt í Laugavegshlaupinu en hlaupaleiðin er 55 kílómetrar. Það segir sig því nokkuð sjálft, eins og Lilja sagði sjálf, að til að klára utanbæjar Laugaveginn gengur ekki að liggja í sófanum áður en lagt er af stað.

Hefur hlaupið „nokkur maraþon“

Lilja segir að auðvitað skipti líkamlegt atgervi miklu máli en aðalatriðið snúist um að vera rétt stemmd í kollinum; það megi ekki hugsa um að gefast upp. „Það er aðalatriðið. Auðvitað þarf maður að vera í góðu líkamlegu formi,“ segir Lilja sem hefur hlaupið „nokkur maraþon“ eins og hún orðar það og ætti því að vera í fínu formi. Auk nefnir hún að hlaup sé hópefli og hún hafi farið Laugaveginn með frábærri hlaupavinkonu sinni, Valgerði Ólafsdóttur.

Aðstæður í ár þóttu með besta móti, skýjað og sól öðru hvoru og hægur vindur.

Lilja kláraði á tímanum 08:29:43 en henni þótti hlaupið í ár auðveldara en hún bjóst við áður en lagt var af stað. Hún segir veðrið skipta miklu máli.

Þetta var í fjórða sinn sem Lilja tekur þátt í …
Þetta var í fjórða sinn sem Lilja tekur þátt í Laugavegshlaupinu en hlaupaleiðin er 55 kílómetrar. Ljósmynd/Aðsend

Ég var búinn að kvíða svolítið fyrir því byrjunin er svolítið erfið eða það fannst mér alla vega í huganum. Það er svo mikil hækkun til að byrja með,“ segir Lilja og bætir við að aðstæður þegar hún hljóp síðast, árið 2014, hafi verið heldur slæmar.

„Þá var mikill snjór og slydda. Auk þess var töluverður vindur,“ segir Lilja en í ár var annað uppi á teningnum:

„Við fengum alveg frábært veður en að vísu var strekkingsvindur á móti frá Álftavatni og til enda. Veðrið var yndislegt að öðru leyti. Svo mikil náttúrufegurð og fjölbreytt landslag. Þetta er stórkostleg upplifun. Ég mæli með þessu!“ segir Lilja.

Unga fólkið hafði ekkert gaman af hlaupum

Hún byrjaði að hlaupa „af einhverri alvöru“ þegar hún var að verða fimmtug en hún er í hlaupahópi Fjölnis í Grafarvoginum. „Unga fólkið hafði ekki mjög gaman af því að hlaupa, frekar en að ganga á fjöll. Að vísu eru tímarnir breyttir núna,“ segir Lilja.

Blaðamaður veltir því upp hvort aukinn áhuga yngra fólks á hlaupum og fjallgöngu megi rekja til þess að oft náist myndvæn augnablik á slíkum stundum. Lilja hlær að þeim vangaveltum og segir að það hafi í það minnsta orðið mikil vakning meðal ungs fólks í hlaupum. „Það er hið besta mál.“

Leið mjög vel þegar hún kom í mark

Spurð hvort það hafi ekki verið sæmilegt að koma í mark eftir átta og hálfrar klukkustundar púl var svarið frekar augljóst:

„Þú getur rétt ímyndað þér! Það var rosaleg sælutilfinning. Það kom mér samt á óvart í þessu hlaupi að ég hélt alveg út og gat hlaupið síðasta spölinn. Í minningunni var ég svo þreytt undir lokin en mér leið mjög vel núna þegar ég kom í mark,“ segir Lilja.

Hún hefði samt ekki lagt upp í að hlaupa Laugaveginn til baka en ofurhlaupararnir Elísabet Margeirsdóttir og Þorbergur Ingi Jónsson hlupu Laugaveginn fram og til baka. „Ég hefði nú ekki getað gert það sem Þorbergur og Elísabet gerðu.“

Lilja er ekki af baki dottinn og ætlar að halda áfram að spretta úr spori á meðan hún hefur heilsu til. En ætlar hún þá að verða fyrsta konan í aldursflokknum 80 ára og eldri til að klára Laugaveginn?

„Ég hleyp á meðan ég get.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert