Engin atlaga að einokun ISNIC

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir það hafa verið mistök á sínum tíma þegar félagið ISNIC, eini útgefandi .is-léna, var einkavætt. Fyrirtækið starfi á einokunarmarkaði í skjóli einkaréttar.

Nýtt frumvarp um landshöfuðlénið .is var nýlega kynnt í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem þess er í fyrsta sinn getið í lögum að .is sé landshöfuðlén Íslands. Engar tilraunir eru þó gerðar til að afnema einokun ISNIC, sem er að mestu hluta í eigu einkaaðila.

Opinberir aðilar eiga 23% eignarhlut í félaginu, sem skiptist milli Íslandspósts, sem á 18,66%, Alþingis sem á 1,15%, Raunvísindastofnunar Háskólans með 1,13%, Reykjavíkurborg með 0,41% og ríkissjóðs sem á 1,91%. Annar eignarhlutur var einkavæddur árið 2001 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Í erindi sínu til Alþingis árið 2012 sagði Póst- og fjarskiptastofnun að þar eð „skráarhald og ábyrgð á skráningastarfsemi [geti] aðeins verið á hendi eins aðila [sé] um að ræða náttúrulega einokun (e. natural monopoly)“.

Í skjóli hennar rukkar fyrirtækið 5.980 króna árgjald fyrir .is-lén, sem er umtalsvert hærra en gengur og gerist í nágrannaríkjum, þó verðið hafi lækkað töluvert undanfarin ár. Þannig leiðir óformleg könnun blaðamanns í ljós að sænsk lén, .se, megi auðveldlega fá fyrir 1.600 krónur á ári, 120 sænskar, og .com-lén á 20 dali, en rétt er að taka fram að þau eru ekki landshöfuðlén neinna.

Björn segir að sala fyrirtækisins til einkaaðila hafi jafnast á við að selja orkuauðlindina eða koma kvótanum í einkaeigu, en kvótakerfið sé þó skárra því þar megi hvert fyrirtæki ekki eiga nema 8-10% af kvóta hverrar tegundar á meðan ISNIC hafi öll tögl og haldir á .is-lénum.

Ljóst sé þó að fyrirkomulaginu verði ekki breytt með lagasetningu heldur þyrfti eignaupptöku til, eða þá að ríkið keypti aftur hlut einkaaðila í ISNIC, en Björn treystir sér ekki til að segja til um hvort það væri æskilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert