Lénið .is mikilvægur innviður samfélagsins

Höfundarrétthafar vilja að stjórnvöld geti afskráð lén.
Höfundarrétthafar vilja að stjórnvöld geti afskráð lén. Ljósmynd/Thomas Lefebvre

Ríkisstjórn Íslands hefur áform um að leggja fram frumvarp til laga um landshöfuðlénið .is, en hvergi er minnst á lén í íslenskum lögum eins og þau standa í dag. Nokkrar atlögur hafa verið gerðar að samningu frumvarpa á þessu sviði en hafa þær ekki náð fram að ganga.

Í áformum um frumvarpið, sem lagt er fram af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, er lagt til að samið verði nýtt frumvarp um landshöfuðlénið .is, enda verða að líta á það sem mikilvægan innvið fyrir íslenskt samfélag.

Því verði að teljast bæði tímabært og nauðsynlegt að sett verði lágmarks lagaumgjörð um skráningarstofu lénsins, að því er segir í samráðsgátt stjórnvalda, en umsagnarfrestur um áformin rann út í gær.

Í umsögn stjórnar Internets á Íslandi, ISNIC, sem eitt fyrirtækja sinnir skráningu léna undir landshöfuðléninu .is, segir að ekki hafi veri sýnt fram á þörf fyrir setningu sérstakrar löggjafar um landshöfuðlénið og að markmið áformaðrar lagasetningar séu óljós.

Að lokum bendir ISNIC á að internetið, þ. á m. lénaheitakerfið, er í sífelldri þróun sem ómögulegt er að sjá fyrir. Afar mikilvægt er að lög og reglur á sviði internetsins standi eðlilegri þróun þjónustunnar ekki í vegi.

Hægt verði að afskrá lén vegna ólögmætrar starfsemi

Í sameiginlegri umsögn fjögurra samtaka höfundarrétthafa, STEF, FHS, FRÍSK og SÍK, er farið fram á að tryggt verði með lagasetningunni að upplýsingar um rétthafa léns séu alltaf réttar og að tryggt verði að lén verði afskráð ef starfsemi sem fram fer í gegnum vefsíður á viðkomandi léni brjóti í bága við lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert